„Eins og að keyra rútur“

Robert Kubica þróunarökumaður Williams er ekki mjög hrifin af nýju keppnisbílum formúlunnar. Kvartar hann undan þyngd þeirra og segir þá þurfa í megrunarkúr.

„Það fyrsta sem ég tók eftir var þyngdin. Bílarnir eru að minnsta kosti 60 kílóum of þungir. Í hægum beygjum eru þeir eins og rútur,“ segir hann við þýska bíla- og akstursíþróttaritið Auto Motor und Sport.

Kubica er í stakk búinn til að bera saman keppnisbíla nú og fyrir áratug. Hann keppti á sínum tíma fyrir BMW, Sauber og Renault áður en slys í ralli í ársbyrjun 2011 batt endi á feril hans í formúlu-1, allt þar til í fyrra.

„Þeir voru 605 kíló og 50 kíló af færanlegri kjölfestu. Dekkin voru líka endingarminni svo maður gat sótt allan kappaksturinn,“ segir Kubica um bílana fyrrum, en blaðið ræddi við hann að loknum þróunarakstri, sem nú stendur yfir í Barcelona.

Kubica segir þungu bílanna eiga erfiðara með framúrakstur. „Léttið bílana og mörg vandamál munu leysast af sjálfu sér.“ Hann gagnrýnir að nú snúist aksturinn um að passa upp á hitt og þetta í stað þess að sækja í botni. Til að mynda reyndu ökumenn að hafa gott bil á milli bílanna í Barcelona vegna hættu á ofhitnun annars.

Loks kemur í ljós að Kubica er ekki mikið fyrir þann stöðuga straum upplýsinga sem keppnisvélfræðingar liðanna láti rigna yfir ökumennina meðan á kappakstri stendur. „Þetta var ekki svona þegar hann keppi á sínum tíma. „Ökumennirnir eru kannski orðnir latari fyrir bragðið. Ég sé enga ástæðu fyrir því að góður ökumaður þurfi að sæta stöðugum fyrirmælum úr bílskúr sínum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert