AC Milan lýsir yfir stríði

Kaká í leik með AC Milan.
Kaká í leik með AC Milan. Reuters

Adriano Galliani, varaforseti AC Milan, lýsti í gær yfir stríði á hendur spænska stórliðinu Real Madrid. Forráðamenn Mílanóliðsins eru mjög ósáttir við þær aðferðir sem Real Madrid hefur notað til að lokka til sín brasilíska miðjumanninn Kaká en forseti Real Madrid, Ramon Calderon, sagði við fjölmiðla þann 3. júlí síðastliðinn að hann hafi náð samkomulagi við leikmanninn um að ganga í raðir spænska liðsins.

Einkum gagnrýndi Galliani Predrag Mijatovic, yfirmann íþróttamála hjá Real Madrid. „Í 50 ár hefur Real Madrid verið besta félag í heimi en nú hafa þeir fleygt því öllu út um gluggann. Þetta lið hefur ekkert gert til að heiðra sögu þess og nafn. AC Milan lýsir yfir stríði á hendur Real Madrid - þið megið orða það þannig - og við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að gera þeim lífið ómögulegt,“ sagði hinn harðorði Galliani.

Kaká er samningsbundinn AC Milan til ársin 2011 en refsing liðsins í spillingarmálinu fræga var milduð til muna í fyrradag. Liðið fær þátttökurétt í Evrópukeppni auk þess sem einungis átta stig verða dregin af liðinu í stað 15. „Kaká er ekki á förum héðan og ef svo væri færi hann ekki til Real Madrid. Enginn frá okkar félagi mun semja við þetta lið því þeir fara ekki eftir hefðbundnum leiðum. Ég vil taka fram að þessi orð beinast gegn núverandi stjórn liðsins en ekki félaginu sem allir elska og virða,“ sagði Galliani.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert