Öllum knattspyrnuleikjum á Ítalíu aflýst

Táragas og reykur frá blysum áhorfenda á vellinum í Catania …
Táragas og reykur frá blysum áhorfenda á vellinum í Catania í kvöld. Reuters

Ítalska knattspyrnusambandið hefur aflýst öllum knattspyrnuleikjum í tveimur efstu deildunum um helgina eftir að lögreglumaður lét lífið í óeirðum, sem brutust út í leik Sikileyjarliðanna Catania og Palermo í kvöld. Þá hefur landsleik Ítala og Rúmena, sem átti að fara fram á miðvikudag, og leik ítalska U21 landsliðsins við Belga, verið aflýst.

Leikur Catania og Palermo fór fram óvenju snemma í kvöld vegna þess að óttast var að upp úr syði milli áhangenda liðanna. Leikurinn var stöðvaður eftir klukkutíma þegar táragas, sem lögregla notaði til að dreifa óeirðaseggjum, barst inn á leikvöllinn. Átökin brutust út vegna þess að stuðningsmenn Palermo komust ekki inn á leikvanginn í Catania fyrr en í síðari hálfleik.

Leikmenn liðanna flúðu inn í búningsherbergin og leiknum var ekki haldið áfram fyrr en eftir hálftíma. Palermo vann leikinn 2:1.

Pietro Lo Monaco, framkvæmdastjóri Catania, sagðist í kvöld ætla að hætta að skipta sér af knattspyrnu. „Ég heyrði að lögreglumaður hefði látið lífið," sagði hann. „Það er þýðingarlaust að tala um knattspyrnu nú. Í mínum huga er þetta búið. Ég ætla að hætta að skipta mér af fótbolta. Íþróttin hefur verið mér mikils virði en eftir þetta er allt slíkt fáránlegt."

Saksóknaraembætti Cataniaborgar hefur tilkynnt að rannsókn muni hefjast á málinu. Svo virðist sem lögreglumaðurinn hafi orðið fyrir heimatilbúinni sprengju einhver á leikvanginum kastaði frá sér.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert