Keflavík lagði KR-inga í Vesturbænum

Guðmundur Steinarsson kom Keflavík yfir á 39. mínútu.
Guðmundur Steinarsson kom Keflavík yfir á 39. mínútu. Morgunblaðið/Kristinn Ingvarsson

Keflvíkingar lögðu KR-inga að velli, 2:1, í lokaleiknum í fyrstu umferð úrvalsdeildar karla í knattspyrnu, Landsbankadeildinni, á KR-vellinum í kvöld. Guðmundur Steinarsson og Símun Samuelsen komu Keflavík í 2:0 en Björgólfur Takefusa minnkaði muninn fyrir KR-inga.

„Það var ótrúlega svekkjandi að ná ekki að sigra. Við vorum miklu betri aðilinn í leiknum og miðað við yfirburði okkar í fyrri hálfleik þá skil ég ekki hvernig Keflavík var marki yfir. Við erum miklu betri á þessum árstíma ef miðað er við sama tíma í fyrra,“ sagði Teitur Þórðarson þjálfari KR í sjónvarpsviðtali eftir leikinn.

„Við erum með hörkulið sem á að mínu mati að vera í toppbaráttunni en við náðum ekki að spila boltanum nógu vel á milli okkar í fyrri hálfleik en það lagaðist í þeims síðari,“ sagði Jónas Guðni Sævarsson fyrirliði Keflavíkur í sjónvarpsviðtali eftir leikinn.

„Ég er ekki sammála því að þetta hafi verið vítaspyrna sem dæmd var á mig í fyrri hálfleik. Ég sparkaði í boltann áður og þetta var ekki brot,“ sagði Pétur Hafliði Marteinsson í sjónvarpsviðtali eftir leikinn en Guðmundur Steinarsson skoraði fyrra mark Keflavíkur úr vítaspyrnu í fyrri hálfleik sem dæmd var á Pétur.

„Við leikum gegn FH í næsta leik og þetta er því nokkuð erfið byrjun hjá okkur. Ég veit að Ólafur Jóhannesson þjálfari FH er eflaust ánægður með sigur okkar þar sem hann telur eflaust að Keflavík geti ekki unnið tvo leiki í röð,“ sagði Kristján Guðmundsson þjálfari Keflavíkur í sjónvarpsviðtali eftir leikinn.

Leiknum var lýst beint hér á mbl.is og atvikalýsingin fer hér á eftir.

90+4. Grétar Hjartarson reynir hjólhestaspyrnu að marki Keflavíkur en framhjá.

90. Fjórar mínútur í uppbótartíma.

88. Ingvi Rafn Guðmundsson kemur inná hjá Keflavík fyrir Símun Samuelsen.

83. 1:2. Pétur Hafliði Marteinsson skallar boltann inn að marki Keflavíkur þar sem Björgólfur Takefusa kemur á ferðinni og skorar með skalla af stuttu færi.

76. Óskar Örn Hauksson og Henning Jónasson koma inná hjá KR fyrir Bjarnólf Lárusson og Sigmund Kristjánsson.

74. Atli Jóhannsson hjá KR fær gula spjaldið fyrir að slá til Marco Kotilainens.

67. Gunnlaugur Jónsson fyrirliði KR fær gula spjaldið fyrir brot á Símun Samuelsen.

62. 0:2. Fín sókn Keflvíkinga, Marco Kotilainen með glæsilega sendingu frá hægri inní vítateiginn þar sem Símun Samuelsen tekur boltann á lofti og afgreiðir hann í netið með hörkuskoti.

60. Snögg sókn hjá Keflavík, Marco Kotilainen leikur í átt að vítateig KR og rennir boltanum til vinstri á Símun Samuelsen sem er í ágætu færi en skýtur hátt yfir mark KR-inga.

58. Branislav Milicevic brýtur á Sigmundi Kristjánssyni nánast á miðri vítateigslínu Keflavíkur. Aukaspyrna í sannkölluðu dauðafæri en Björgólfur Takefusa skýtur í varnarvegginn og afturfyrir endalínu.

55. Baldur Sigurðsson í góðu skotfæri í vítateig KR en skýtur yfir markið.

49. Pétur Hafliði Marteinsson tekur boltann laglega niður í vítateig Keflavíkur, snýr sér og skýtur rétt yfir mark Keflvíkinga.

46. Þegar seinni hálfleikur hefst hefur Einar Örn Einarsson komið inná fyrir Magnús S. Þorsteinsson hjá Keflavík og Guðmundur Reynir Gunnarsson fyrir Kristin J. Magnússon hjá KR.

Flautað til hálfleiks og Keflvíkingar með forystu, 1:0, með marki Guðmundar Steinarssonar úr vítaspyrnu.

39. 0:1. Dæmd vítaspyrna á KR-inga þegar Magnús S. Þorsteinsson fellur í návígi við Pétur Hafliða Marteinsson á markteig KR. Guðmundur Steinarsson tekur spyrnuna og skorar af öryggi.

38. Kristinn J. Magnússon fær sendingu innfyrir vörn Keflavíkur frá Grétari Hjartarsyni en skýtur beint á Ómar í markinu úr dauðafæri.

23. Grétar Hjartarson með gott skot af 20 metra færi að marki Keflavíkur eftir vel útfærða aukaspyrnu. Ómar Jóhannsson ver og varnarmenn ná að koma boltanum frá markinu.

13. Símun Samuelsen skapar mikla hættu í markteig KR með sendingu frá vinstri en Ágúst Þór Gylfason nær að bjarga á síðustu stundu.

9. Sigmundur Kristjánsson kemst einn innfyrir vörn Keflavíkur eftir sendingu Grétars Hjartarssonar og sendir boltann framhjá Ómari markverði en hárfínt framhjá stönginni.

8. Grétar Hjartarson í góðu færi á markteig Keflvíkinga en skýtur í varnarmann og í horn.

Lið KR: Kristján Finnbogason - Skúli Jón Friðgeirsson, Gunnlaugur Jónsson, Pétur Hafliði Marteinsson, Ágúst Þór Gylfason - Sigmundur Kristjánsson (Óskar Örn Hauksson 76.), Kristinn Magnússon (Guðmundur Reynir Gunnarsson 46.), Bjarnólfur Lárusson (Henning Jónasson 76.), Atli Jóhannsson - Björgólfur Takefusa, Grétar Hjartarson.
Varamenn: Stefán Logi Magnússon, Tryggvi Bjarnason, Vigfús Jósepsson, Ingimundur Óskarsson.

Lið Keflavíkur: Ómar Jóhannsson - Guðjón Árni Antoníusson, Nicolai Jörgensen, Hallgrímur Jónasson, Branislav Milicevic - Marco Kotilainen, Jónas Guðni Sævarsson, Baldur Sigurðsson, Símun Samuelsen (Ingvi Rafn Guðmundsson 88.) - Magnús S. Þorsteinsson (Einar Örn Einarsson 46.), Guðmundur Steinarsson.
Varamenn: Bjarki Freyr Guðmundsson, Einar Orri Einarsson, Þorsteinn Atli Georgsson, Hilmar Trausti Arnarsson, Stefán Örn Arnarson.

Dómari er Egill Már Markússon.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert