Eyjólfur: Ég er ekki kominn í þrot með þetta lið

Eyjólfur Sverrisson er ekki á því að hætta með landsliðið, …
Eyjólfur Sverrisson er ekki á því að hætta með landsliðið, miðað við svör hans í kvöld. Golli

"Nei, ég er ekki kominn í þrot með þetta lið," sagði Eyjólfur Sverrisson landsliðsþjálfari í knattspyrnu í samtali við Guðmund  Benediktsson hjá Sýn eftir skellinn gegn Liechtenstein, 3:0, í Evrópukeppni landsliða í Vaduz í kvöld.

"Við vorum niðurlægðir og vorum hrikalega daprir í kvöld. Þetta  var með ólíkindum. Við fengum á okkur þrjú mörk gegn Liechtenstein, fengum sjálfir fjögur dauðafæri en náðum ekki að nýta þau. Við spiluðum ekki nógu vel sem lið," sagði Eyjólfur.

Hann sagði að lið sitt hefði verið vel undirbúið. "En það hefur sýnt sig að þegar við þurfum að stjórna leikjunum, fer allt í lás hjá okkur. Um leið og við fengum á okkur mark fór allt í handaskol. Þetta er það sem við höfum verið að berjast við undanfarin fimm ár, við eigum tvo góða leiki og svo tvo slæma leiki.

Þessi vörn stóð sig brilliant á móti Spáni og Norður-Írlandi, og við þurfum að finna stöðugleika sem okkur hefur ekki tekist í fimm ár.

Á móti Lettum fengum við á okkur mörk úr uppstilltum atriðum og það er ákveðið agaleysi, menn eru ekki nógu vel á tánum. Nú fengum við á okkur skyndisóknir og færi úr þeim. Þetta er yfirleitt þannig að þegar við þurfum að færa okkur framar á  völlinn, erum við rassskelltir," sagði Eyjólfur.

Aðspurður um Danaleikinn sagði Eyjólfur: "Við verðum að spila gríðarlega þéttan varnarleik þar, eins og á móti Spánverjum og Norður-Írum, svo við verðum ekki niðurlægðir þar líka. Við höfum yfirleitt staðið okkur vel gegn stóru þjóðunum og ætlum að gera það líka á Parken."

Nei, ég er ekki kominn í þrot með þetta lið. Það fór allt í baklás í dag og við þurfum að lagfæra það. Ég held að hugarfarið sé gott, það var ekki síðra fyrir þennan leik en fyrir leikina gegn Spánverjum og Norður-Írum," sagði Eyjólfur Sverrisson við Sýn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert