Þetta var frábær frammistaða

Íslenska liðið fagnar góðu dagsverki.
Íslenska liðið fagnar góðu dagsverki. mbl.is/Golli

Sara Björk Gunnarsdóttir, yngsti leikmaður íslenska landsliðsins í knattspyrnu, braut ísinn í gær þegar hún skoraði fyrsta markið í 7:0 sigri á Grikkjum í undankeppni Evrópumótsins.

Þetta var hennar tíundi landsleikur en Sara hefur spilað alla leiki A-landsliðsins síðan í ágúst á síðasta ári og hefur nú gert þrjú mörk, tvö þeirra í Evrópukeppninni.

„Það var frábær tilfinning að skora þetta mark. Núna var líka mun meira af fólki og meiri stemning en á laugardaginn, þannig að þetta var alveg frábært," sagði Sara Björk sem lék sinn fyrsta heimaleik síðastliðinn laugardag í 5:0 sigri á Slóveníu.

„Við ætluðum að byrja leikinn af fullum krafti frá fyrstu mínútu og
gerðum það, gáfum ekkert eftir og börðumst af sama krafti út leikinn. Við gerðum allar eins vel og við getum til að geta dugað jafntefli í Frakklandi. Eflaust getum við gert enn betur, en þetta var frábær frammistaða. Það er rosalega góð tilfinning að eiga svona mikinn möguleika á að komast í úrslitakeppni, mjög spennandi, og núna einblínum við bara á Frakklandsleikinn," sagði Sara Björk.

Eftir um vikulanga dvöl með íslenska landsliðinu heldur þessi marksækni sóknartengiliður nú í Hafnarfjörðinn þar sem hún leikur með 1. deildarliði Hauka. Sumir teldu það kannski óspennandi eftir að hafa spilað frammi fyrir rúmlega 5.000 áhorfendum á Laugardalsvelli, en Sara Björk þvertekur fyrir það. „Nei, nei, það er mjög fínt."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert