Ólafur: Það er 1. apríl og Skotar verða ekki fullir

Ólafur Jóhannesson, landsliðsþjálfari.
Ólafur Jóhannesson, landsliðsþjálfari. mbl.is/Brynjar Gauti

Tilsvör Ólafs Jóhannessonar landsliðsþjálfara Íslands í knattspyrnu halda áfram að skemmta skoskum fréttamönnum. Hann gaf í morgun lítið fyrir fregnir af agabrotum landsliðsmannanna Barrys Fergusons og Allans McGregors, benti Skotunum á að í dag væri 1. apríl og hann reiknaði ekki með því að Skotar yrðu drukknir í leiknum í kvöld.

„Ég held að það sé 1. apríl í dag," sagði Ólafur þegar hann var spurður álits á því að þeir Ferguson og McGregor yrðu ekki með í kvöld. Eins og fram hefur komið hafa sættir tekist í því máli og þeir verða varamenn í leiknum en ekki í byrjunarliði Skota.

„Þessar fréttir komu mér ekkert í opna skjöldu því í fótboltanum kemur ekkert á óvart," sagði Ólafur við STV og þegar hann var spurður hvort fjarvera tvímenninganna myndi veikja skoska liðið svaraði hann: „Það held ég ekki. Þeir verða ellefu talsins og verða ekki fullir."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka