Þriðji Úgandamaðurinn til ÍBV

Augustine Nsumba, til hægri, er einn Úgandamannanna í liði ÍBV.
Augustine Nsumba, til hægri, er einn Úgandamannanna í liði ÍBV. mbl.is/Sigfús

Tonny Mawejje, landsliðsmaður í knattspyrnu frá Úganda, er genginn til liðs við Eyjamenn en hann kemur á lánssamningi til þeirra frá liði í heimalandi sínu. Þar með tefla Eyjamenn fram þremur Úgandamönnum á komandi tímabili.

Mawejje er 25 ára gamall miðjumaður og er væntanlegur til Eyja fljótlega ásamt löndum sínum og leikmönnum ÍBV, Andrew Mwesigwa og Augustine Nsumba. Þetta verður fjórða árið sem Mwesigwa leikur með ÍBV og þriðja árið hjá Nsumba.

Mawejje kemur frá liði URA í heimalandi sínu en það er í þriðja sæti úrvalsdeildarinnar í Úganda. Hann sagðist í samtali við dagblaðið Daily Monitor í Úganda hlakka mikið til Íslandsfararinnar.

„Ég er geysilega ánægður því þetta er það sem ég hef alltaf stefnt að. Nú er það í mínum höndum að sýna mitt besta. Þetta er allt í höfn og ég fer til Íslands á laugardaginn. Ég þarf ekki að fara til reynslu því ég er þegar búinn að sannfæra forráðamenn ÍBV," sagði Mawejje við blaðið, en fram kemur að þjálfari ÍBV, Heimir Hallgrímsson, hafi séð til hans í keppni með landsliði Úganda í fyrra og Íslandsförin sé sprottin útfrá því.

ÍBV hefur þá fengið þrjá nýja leikmenn á skömmum tíma en á dögunum voru táningarnir Ajey Leitch-Smith og Chris Clements fengnir að láni frá enska 2. deildarliðinu Crewe.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert