„Drillo“ gefur Laugardalsvelli falleinkunn

Laugardalsvöllur.
Laugardalsvöllur. mbl.is

Egil „Drillo“ Olsen þjálfari norska karlalandsliðsins í fótbolta segir í viðtali við norska dagblaðið Aftenposten í dag að Þjóðarleikvangur Íslendinga, Laugardalsvöllur í Reykjavík, sé lélegur og að æfingavöllurinn sem norska liðið mun æfa á í ferðinni til Íslands í næstu viku sé mun betri en keppnisvöllurinn.

Samkvæmt upplýsingum frá KSÍ mun norska liðið æfa á Kaplakrikavelli á meðan liðið dvelur hér á landi en leikurinn gegn Íslendingum í undankeppni Heimsmeistaramótsins fer fram laugardaginn 5. september.

„Drillo“ leggur áherslu á að leikmenn liðsins þori að taka áhættu í sóknarleiknum en ekkert verði gefið eftir í öguðum varnarleik. Norðmenn lögðu Skota 4:0 á Ullevaal vellinum í Osló 12. ágúst og liðið á enn möguleika á að ná öðru sæti riðilsins með því að leggja Ísland og Holland að velli í tveimur síðustu leikjunum.

„Leikmenn hafa mikið frjálsræði í sóknarleiknum. Í varnarleiknum hafa leikmenn lítið frjálsræði en í sókn þá verðum við að þora að taka áhættu. Sérstaklega þegar við fáum tækifæri til þess að sækja hratt. Þá verða leikmenn að taka sprettinn en ekki hlaupa, það er stór munur á þessu. Þegar annar bakvörðurinn kemst í færi í vítateignum og hinn bakvörðurinn nær frakástinu þá er ég ánægður,“ segir landsliðsþjálfarinn en hann kom til Íslands á dögunum til þess að taka út aðstæður á Íslandi.

„Það kæmi mér á óvart ef okkur tækist ekki að ná hröðum sóknum gegn Íslendingum en ég á von á erfiðari leik gegn þeim en gegn Skotum. Íslendingar eru sterkir,“ segir Egil „Drillo“ Olsen.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert