Mourinho tekur við Real Madrid

José Mourinho er sérlega sigursæll.
José Mourinho er sérlega sigursæll. Reuters

Portúgalinn José Mourinho verður næsti þjálfari spænska knattspyrnustórveldisins Real Madrid. Spánverjarnir komust í dag að samkomulagi við Inter Mílanó, sem Mourinho hefur stýrt síðustu tvö árin, um að þeir fengju hann í sínar raðir.

Forsetar Real Madrid og Inter, Florentino Perez og Massimo Moratti, hittust í Mílanó í dag og náðu sáttum um þær bætur sem Real greiðir Inter. Mourinho var samningsbundinn ítalska félaginu til ársins 2012. Áður hafði Inter krafist þess að fá tæpar 16 milljónir evra fyrir að sleppa honum til Spánverjanna.

Mourinho, sem er 47 ára gamall og var áður var sigursæll hjá Porto og Chelsea, tók við liði Inter sumarið 2008. Undir hans stjórn varð Inter meistari bæði árin og á nýliðnu tímabili vann félagið þrefalt, varð ítalskur meistari og bikarmeistari, og vann Meistaradield Evrópu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert