Getum slegið KR út úr keppninni

Baldur Sigurðsson í baráttu við leikmann Glentoran í fyrri leik …
Baldur Sigurðsson í baráttu við leikmann Glentoran í fyrri leik liðanna. mbl.is/Ómar

Roy Coyle, yfirmaður knattspyrnumála hjá norður-írska félaginu Glentoran, telur sína menn geta slegið KR út úr Evrópudeild UEFA í kvöld þrátt fyrir 0:3 ósigur gegn Íslendingunum í fyrri leiknum í síðustu viku.

Coyle stýrir liðinu af bekknum þar sem knattspyrnustjórinn Scott Young hefur ekki aflað sér tilskilinnar þjálfaramenntunar enn sem komið er. Young situr því í stúkunni eins og hann gerði á KR-vellinum síðasta fimmtudag.

„Þetta verður að sjálfsögðu erfitt en ef við skorum snemma gætu mótherjarnir orðið óstyrkir. Við eigum á brattann að sækja og getum sjálfum okkur um kennt því mistökin sem við gerðum í fyrri leiknum reyndust okkur afdrifarík. En við erum með ungt lið sem vonandi hefur lært af því. Það yrði ekki í fyrsta skipti sem 3:0 forskot væri unnið upp. Ég man eftir því þegar Linfield vann FC Köbenhavn 3:0 en tapaði síðan 0:4 í útileiknum, svo það getur allt gerst," sagði Coyle við Belfast Telegraph í dag.

Hann er með sterkari leikmannahóp í kvöld en í fyrri viðureigninni á KR-vellinum. Matty Burrows, sem þá var í leikbanni, kemur inní hópinn ásamt Colin Nixon, Ciaran Martyn og Andy Hall sem einnig misstu af Íslandsförinni.

Coyle gagnrýndi jafnframt norður-írsk knattspyrnuyfirvöld og UEFA harkalega í Belfast Telegraph. Hann er ósáttur við að félagið fái enga aðstoð til að búa sig undir Evrópuleiki á þessum tíma árs, sem fari fram aðeins átta vikum eftir að keppnistímabilinu lýkur og stytti sumarfrí leikmannanna verulega.

„UEFA er alltaf að færa þessa leiki framar og að mínu mati er það gert til að ýta löndum eins og okkar til hliðar og sjá til þess að Evrópukeppnin sé bara fyrir stóru félögin. Við fylgjum bara þróuninni og fyrir vikið verður alltaf erfiðara og erfiðara fyrir okkur að ná árangri. Á árum áður vorum við feti framar en Norðurlandaþjóðirnar, en nú eru þær komnar ljósárum framúr okkur og það er vegna þess að knattspyrnusamböndin í þessum löndum hafa staðið vel við bakið á sínum félögum. Það hefur líka verið gert á Írlandi, Shelbourne var nærri því komið í Meistaradeildina, en ég hef aldrei orðið var við að norður-írska sambandið lyfti litlafingri til að hjálpa sínum félögum," sagði Coyle.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert