Ótrúlegt sjálfsmark Ögmundar fær mikla athygli (myndskeið)

Ögmundur Ólafsson hefur oft leikið betur en á sunnudaginn.
Ögmundur Ólafsson hefur oft leikið betur en á sunnudaginn. mbl.is/Golli

Eitt ótrúlegasta sjálfsmark íslenskrar knattspyrnusögu leit dagsins ljós í leik Þórs og HK í 1. deild karla um helgina. Það náðist á myndband sem nýtur vinsælda á Youtube og fær meðal annars góða umfjöllun á vef norsku sjónvarpsstöðvarinnar TV2.

Markið skoraði markvörður HK-inga, Ögmundur Ólafsson, strax á fyrstu mínútu leiksins með fáránlega klaufalegum hætti. Nokkrum mínútum síðar fékk hann dæmda á sig vítaspyrnu, og í samtali við TV2 viðurkennir Ögmundur að fyrstu fimm mínútur leiksins hafi ekki beint verið sínar bestu á ferlinum.

Leikurinn endaði með 6:3 sigri Þórs sem gulltryggði sigurinn með tveimur mörkum undir lok leiksins.

Myndband með atvikum leiksins má sjá með því að smella hér (markið sjálft kemur eftir 1 mínútu og 27 sekúndur). Þegar þetta er skrifað hefur myndbandið verið skoðað yfir 11.000 sinnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert