Ísland í úrslit á Algarve mótinu

Íslensku leikmennirnir fagna sigrinum á Dönum í leikslok.
Íslensku leikmennirnir fagna sigrinum á Dönum í leikslok. mbl.is/Algarvephotopress

Ísland gerði sér lítið fyrir og tryggði sæti sitt í úrslitaleiknum á Algarve mótinu í Portúgal með 1:0 sigri á Dönum. Þetta var fyrsti sigur Íslands á Dönum en þetta var fimmti leikur þjóðanna. Dóra María Lárusdóttir skoraði markið sem skildi liðin að á 55. mínútu eftir glæsilega sendingu frá Hallberu Gísladóttur. Frábært afrek hjá íslenska liðinu og þær mæta nú Bandaríkjunum í úrslitaleiknum á miðvikudaginn. Jafntefli hefði dugað liðinu en með sigrinum hefur íslenska liðið nú unnið öll Norðurlöndin, Danmörk, Svíþjóð, Noreg og Finnland.

Katrín Jónsdóttir spilaði sinn 105. leik og setti þar með leikjamet. Frábær tímasetning að ná þessum áfanga í sama mund og liðið tryggir sér í úrslitaleik á þessu sterka móti.

90. Fjórum mínútum bætt við, Ísland þarf að halda út í fjórar mínútur til viðbótar.

86. Sigurður Ragnar heldur áfram að breyta íslenska liðinu. Á 82. mínútu kom Ólína Viðarsdóttir útaf og inn kom Thelma Björk Einarsdóttir og þremur mínútum síðar fór Margrét Lára Viðarsdóttir út og inn kom Berglind Björg Þorvaldsdóttir. Ísland er enn með 1:0 forystu og stefnir í að landa sínum fyrsta sigri á Dönum.

75. Mikið jafnræði er með liðunum þessa stundina. Danir áttu fyrir skömmu gott skot úr aukaspyrnu af löngu færi en fór rétt yfir markið. Sigurður Ragnar hefur gert tvær breytingar á liðinu til viðbótar en Edda Garðarsdóttir og Dóra María Lárusdóttir komu út af og Málfríður Erna Sigurðardóttir og Dagný Brynjarsdóttir komu inná.

65. Önnur skipting íslenska liðsins Greta Mjöll Samúelsdóttir kemur inn fyrir Hallberu Gísladóttur. Rétt áður fékk Fanndís Friðriksdóttir sannkallað dauðafæri en sendi boltann rétt framhjá markinu.

60. Fyrsta skiptingin hjá íslenska liðinu. Fanndís kemur inn fyrir Katrínu Ómarsdóttur. Skiptingin fer fram á 60. mínútu og á sömu mínútu fellur Margrét Lára inn í vítateig Dana en norski dómarinn lætur leikinn halda áfram og hunsar beiðni íslenska liðsins um vítaspyrnu.

55. Mark! Hallbera Guðný Gísladóttir á sendingu frá vinstri og Dóra María skorar með viðstöðulausu skoti. Glæsilegt mark og Ísland komið yfir 1:0.

53. Danir fengu víti fyrir litlar sakir, hugsanlega um bakhrindingu að ræða. Það kom hinsvegar ekki að sök því Þóra B. Helgadóttir gerði sér lítið fyrir og varði vítaspyrnuna í horn. Upp úr hornspyrnunni kom skot frá danska liðinu sem fór í stöng. Í öllum látunum fékk Edda Garðarsdóttir gult spjald. 

46. Flautað til síðari hálfleiks og Sigurður Ragnar Eyjólfsson hefur engar breytingar gert á liði Íslands.

45+1. Flautað til hálfleiks og staðan er 0:0. Íslenska liðið var heldur meira með boltann í fyrri hálfleiknum en danska liðið var oft hættulegt í hröðum sóknum, enda með fljóta kantmenn í sínu liði. Markalaust og þessi staða myndi duga Íslandi til að leika úrslitaleikinn á miðvikudaginn.

44. Danir eiga hættulega stungusendingu en Þóra B. Helgadóttir markvörður gerir allt rétt, er á undan sóknarmanninum og bjargar málunum af öryggi.

38. Ísland fær tvær hornspyrnur í röð sem Edda Garðardóttir tekur. Eftir þá síðari skallar Katrín Jónsdóttir að marki en markvörður Dana ver örugglega.

34. Margrét Lára Viðarsdóttir með skot yfir mark Dana. Fátt gerist annars uppvið mörkin en baráttan á miðsvæðinu er mikil og ekkert gefið eftir.

32. Danir skapa dálitla hættu við íslenska markið. Fyrst með aukaspyrnu frá vítateigshorni, þar sem íslenska vörnin bjargar í horn, síðan nær hún líka að verjast eftir hornspyrnuna.

19. mín. Fyrsta færi leiksins. Eftir langt innkast frá Sif Atladóttur skallar Katrín Jónsdóttir boltann áfram og Margrét Lára Viðarsdóttir á skot sem markvörður Dana ver í horn. Ekkert kemur uppúr því. Danir höfðu áður fengið eina hornspyrnu.

10. mín. Ekkert hefur gerst uppvið mörkin á fyrstu 10 mínútunum. Stöðubarátta á miðjunni og liðin að þreifa sig áfram í leiknum.

1. mín. Leikurinn er hafinn.

Ísland er með 6 stig (4:2), Svíþjóð 3 (4:3), Danmörk 3 (2:3) og Kína ekkert stig. Verði lið jöfn að stigum eru það innbyrðis úrslit sem ráða röð þeirra. Svíþjóð og Kína mætast á sama tíma.

Jafntefli í leiknum dugar Íslandi til að komast í úrslitaleikinn þar sem liðið myndi þá mæta Bandaríkjunum. Tapist leikurinn spilar Ísland um 3. eða 5. sætið á mótinu, við Japan eða Noreg.

Dóra María Lárusdóttir kemur inn í byrjunarliðið í sínum fyrsta leik á mótinu en hún hefur verið frá vegna meiðsla, og tekur hún stöðu Fanndísar Friðriksdóttur. Þóra B. Helgadóttur kemur aftur inn í markið í stað Guðbjargar Gunnarsdóttur.

Liðið er þannig skipað:

Markvörður: Þóra B. Helgadóttir.
Vörn: Þórunn Helga Jónsdóttir, Sif Atladóttir, Katrín Jónsdóttir, Ólína G. Viðarsdóttir.
Miðja: Dóra María Lárusdóttir, Sara B. Gunnarsdóttir, Katrín Ómarsdóttir, Edda Garðarsdóttir, Hallbera Guðný Gísladóttir.
Sókn: Margrét Lára Viðarsdóttir.

Lið Dana: Tine Cederkvist Viskær, Julie Rydahl Bukh, Line Røddik Hansen, Christina Øyangen Ørntoft, Theresa Nielsen, Katrine S. Pedersen, Pernille Mosegaard Harder, Sanne Troelsgaard Nielsen, Katrine Veje, Lise Overgaard Munk, Kristine Pedersen.

Danmörk er í 14. sætinu á heimslista FIFA og hefur aldrei verið jafn neðarlega. Ísland er í 17. sætinu á listanum.

Dóra María Lárusdóttir kom Íslandi yfir og hér er hún …
Dóra María Lárusdóttir kom Íslandi yfir og hér er hún í baráttu við danskan leikmann í leiknum í dag. mbl.is/Algarvephotopress
Hallbera Guðný Gísladóttir í baráttu á vinstri kantinum við tvo …
Hallbera Guðný Gísladóttir í baráttu á vinstri kantinum við tvo danska leikmenn. mbl.is/Algarvephotopress
Katrín Jónsdóttir í baráttu við danskan sóknarmann í leiknum í …
Katrín Jónsdóttir í baráttu við danskan sóknarmann í leiknum í dag. mbl.is/Algarvephotopress
Byrjunarlið Íslands í dag.
Byrjunarlið Íslands í dag. mbl.is/Algarvephotopress
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert