Ólafur: Hef átt fjögur frábær ár

Ólafur Jóhannesson
Ólafur Jóhannesson Golli / Kjartan Þorbjörnsson

,,Ég geng sáttur frá störfum. Mér fannst liðið standa sig mjög vel í kvöld og ég var stoltur af liðinu,“ sagði Ólafur Jóhannesson landsliðsþjálfari við mbl.is eftir 5:3 tap gegn Portúgölum í síðasta leik landsliðsins í undankeppni EM og jafnframt síðasta leik hans sem landsliðsþjálfari.

,,Það var hrikalega ósanngjarnt að vera 3:0 undir eftir fyrri hálfleikinn. Í stöðunni 0:0 fengum við tvö dauðafæri en fengum svo á okkur ódýr mörk. Við töluðum um það í hálfleiknum að það væri auðveldast að gefast upp en það var ekki inni í myndinni hjá strákunum. Við vissum það vel að Portúgalarnir eru frábærir þegar þeir hafa boltann en eru ekki góðir án boltans. Við náðum að nýta okkur veikleika þeirra í varnarleiknum og frammistaðan í seinni hálfleik var frábær,“ sagði Ólafur.

Nú þegar þú ert hættur. Er það léttir eða eftirsjá?

,,Það er miklu meiri eftirsjá. Ég hef fjögur frábær ár með liðið og er það hefur verið mikill heiður að fá að stýra landsliðinu. Auðvitað hefðum við viljað ná betri úrslitum en við erum lítil þjóð í knattspyrnuheiminum.

Ég sagði strax í upphafi þegar ég tók við liðinu að ég vildi láta liðið þora að halda boltanum betur og ég vildi ekki breyta því þótt á móti blési oft á tíðum. Ég setti mér strax það markmið að gefa mörgum tækifæri, ekki síst ungum leikmönnum, og ég held að það hafi skilað sér. Ég held að á næstu tveimur árum eigi íslenska landsliðið að vera samkeppnisfært um að komast á stórmót,“ sagði Ólafur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert