Ólafsvíkingar í efstu deild í fyrsta skipti

Ólsarar fagna sætinu í Pepsi-deildinni á Akureyrarvelli í dag.
Ólsarar fagna sætinu í Pepsi-deildinni á Akureyrarvelli í dag. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Víkingur úr Ólafsvík tryggði sér í dag sæti í efstu deild karla, Pepsi-deildinni, í fyrsta skipti í sögu félagsins með stórsigri á KA, 4:0, á Akureyrarvelli.

Ólafsvíkingar voru með sex stiga forustu á KA fyrir leikinn og nægði því jafntefli en Edin Beslija kom Ólafsvíkingum yfir með glæsilegu marki á 75. mínútu leiksins, 1:0.

Torfi Karl Ólafsson bætti við marki fyrir Ólafsvíkinga á 85. mínútu og þá gáfust KA-menn upp. Eldar Masic skoraði draumamark á 87. mínútu og Björn Pálsson innsiglaði stórsigur gestanna, 4:0, á 90. mínútu.

Þór vann 1. deildina í ár og fer upp í Pepsi-deildina ásamt Ólafsvíkingum. Lokaumferðin í 1. deildinni mun því snúast um hvort Höttur nái að bjarga sér frá falli.

Nánar verður fjallað um leik KA og Víkings. Ó. í Morgunblaðinu á morgun.

KA - Víkingur Ó. 0:4 (Leikskýrsla)
(Edin Beslija 75., Torfi Karl Ólafsson 85., Eldar Masic 87., Björn Pálsson 90.) 

90. Leik lokið með öruggum sigri Ólafsvíkinga sem munu spila í efstu deild í fyrsta sinn í sögu félagsins næsta sumar. Til hamingju Víkingur Ólafsvík!

90. +3. Hallgrímur Mar reynir að klóra í bakkann en Einar Hjörleifsson varði meistaralega

90. MARK - 0:4. Nú eru KA menn alveg búnir á því. Boltinn berst út úr vítateig KA á Björn Pálsson sem skaut að marki. Það var nú ekki fast og virtist Sandor bara horfa á eftir boltanum í markið.

87. MARK - 0:3. Skyndisókn hjá Víkingum. Helgi Óttarr hljóp fram og opnaði vörnina fyrir Eldar Masic sem skaut að marki langt fyrir utan teig og boltinn söng í markhorninu. Draumamark hjá Eldar.

85. - 0:2. Víkingur frá Ólafsvík mun spila í efstu deild næsta sumar. Varamaðurinn Arnar Sveinn Geirsson geystist upp hægri kantinn og kom boltanum fyrir markið þar sem annar varamaður, Torfi Karl Ólafsson, var einn á auðum sjó og sendi boltann í netið.

81. KA-menn gera síðustu skiptingu sína. Guðmundur Óli Steingrímsson fer af velli fyrir Gunnar Örvar Stefánsson. Þetta er klár sóknarskipting.

75. Mark - 0:1. Það er ekkert smá mark! Boltinn barst inn á teiginn á Edin Beslija sem tók boltann viðstöðulaust með bakfallsspyrnu og boltinn lak í netið. Ekki amalegt mark til að tryggja úrvalsdeildarsæti eins og allt lítur út fyrir.

74. Víkingar gera þriðju og síðustu skiptingu sína. Steinar Már Ragnarsson fer af veli og Torfi Karl Ólafsson kemur inná í hans stað.

70. Hallgrímur Mar var felldur í vítateig Víkings en Magnús Þórisson dæmdi ekkert. Héðan úr blaðamannastúkunni virtist þetta nú vera klár vítaspyrna.

Víkingar halda hins vegar í sókn og aftur á Guðmundur Steinn skalla rétt yfir markið, í þetta sinn eftir sendingu frá Arnari Sveini.

65. Skipting hjá báðum liðum. Fannar Freyr Gíslason kemur inná í liði KA fyrir Bjarka Baldvinsson. Hjá Víkingum kemur Arnar Sveinn Geirsson inná fyrir Guðmund Magnússon.

61. Víkingar eru mjög sprækir þessar mínúturnar. Guðmundur Magnússon með gott hlaup upp hægri kantinn og náði sendingu fyrir markið, beint á kollinn á Guðmundi Stein sem skallaði rétt yfir þverslánna í upplögðu færi af markteignum.

60. KA bjargar á línu! Eftir darraðardans á vítateig KA náði Edin Beslija skoti á markið. Kristján Freyr renndi sér hins vegar á eftir boltanum og hreinsaði frá á síðustu stundu. Það er aðeins að lifna yfir þessu.

58. Edin Beslija á harðaspretti var kominn inn á vítateig og var að undirbúa skot á markið. Kristján Freyr Óðinsson bjargaði hins vegar á síðustu stundu með góðri tæklingu. Víkingar eru að ná undirtökunum hérna í síðari hálfleik.

50. Haukur Hinriksson, miðvörður KA, liggur blóðugur eftir að hafa fengið spark í andlitið frá Guðmundi Magnússyni. Haukur getur ekki haldið leik áfram og Jón Heiðar Magnússon kemur inná í hans stað.

46. KA menn hefja síðari hálfleik og leika undan vindi. Víkingar gerðu eina breytingu í hálfleik, Helgi Óttarr Hafsteinsson kom inná fyrir Alfreð Má Hjaltalín.

45. Þá er kominn hálfleikur hér í rigningunni fyrir norðan. Fátt hefur verið um fína drætti í þessum fyrri hálfleik og liðunum gengið illa að byggja upp spil á blautum vellinum.

44. Guðmundur Steinn fyrirliði Víkings liggur eftir í vítateig KA. Sandor Matus sló háa fyrirgjöf frá en virtist slá Guðmund í höfuðið í leiðinni. Sandor er þó drengur góður og var fljótur að kalla á sjúkraliða Ólsara, enda um höfuðmeiðsli að ræða.

30. Víkingar eru með undirtökin í leiknum en erfiðlega gengur þó að skapa sér alvöru færi. Rétt í þessu náði þó Edin Beslija skoti á markið sem fór í hliðarnetið. Stuðningsmenn Ólsara voru byrjaðir að fagna, en því miður fyrir þá fór boltinn vitlausum megin við stöngina. Strax í næstu sókn vildu KA menn fá vítaspyrnu, en Magnús Þórisson dómari leiksins var viss í sinni sök og dæmdi ekkert.

24. Fyrsta alvöru marktækifæri leiksins. Guðmundur Steinn, fyrirliði Ólsara, slapp óvænt í gegnum vörn KA. Hann var hins vegar ekki nógu snöggur og færið var orðið þröngt þegar hann náði loks skoti á markið, sem Sandor í marki KA varði aftur fyrir endamörk.

13. Hætta upp við mark Víkinga. Hallgrímur Mar geystist upp vinstri kantinn, lék á varnarmann og náði góðri sendingu fyrir markið þar sem Brian Gilmour gerði sig líklegan en Ólsarar hreinsuðu frá á síðustu stundu.

7. Leikurinn byrjar rólega. Leikmenn beggja liða eru að reyna að finna taktinn en erfitt er að fóta sig á blautum vellinum. Enn bíðum við eftir fyrsta alvöru marktækifærinu.

1. Leikurinn er hafinn og það er Víkingur frá Ólafsvík sem hefur leikinn og sækir til suðurs.

0. Liðin eru að ganga inn á völlinn. Stuðningsmenn Víkings eru með yfirburði í stúkunni og láta vel í sér heyra með Gunnar Sigurðsson á Völlum fremstan í flokki. Fátt kemur á óvart í byrjunarliðunum hér í dag og búist við hörku leik.

0. Tæplega 100 stuðningsmenn Víkings Ó. ferðuðust með rútu norður og hafa þeir sett mikinn svip á bæjarlífið í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert