Nigel Quashie í BÍ/Bolungarvík

Nigel Quashie í leik með íR.
Nigel Quashie í leik með íR. mbl.is/Ómar

Breski knattspyrnumaðurinn Nigel Quashie, sem lék með ÍR á síðasta ári, hefur samið til þriggja ára við 1. deildar lið BÍ/Bolungarvíkur. Þetta kemur fram á Fótbolta.net.

Quashie á langan feril að baki í Englandi en hann er fæddur í London og spilaði með yngri landsliðum Englands, en síðan 14 leiki með A-landsliði Skotlands.

Hann spilaði með QPR, Nottingham Forest, Portsmouth, Southampton, WBA, West Ham, Birmingham, Wolves og aftur með QPR áður en hann kom til ÍR-inga í fyrra sem spilandi aðstoðarþjálfari. Hann stýrði síðan ÍR á lokaspretti 1. deildarinnar eftir að Andra Marteinssyni þjálfara var sagt upp störfum.

Quashie var einn þeirra leikmanna sem West Ham keypti þegar félagið var nýkomið í eigu Íslendinga í ársbyrjun 2007.

Quashie er annar Bretinn sem bætist í hóp Djúpmanna í þessari viku en á dögunum var samið við Michael Abnett um að koma aftur til liðsins. Hann lék með BÍ/Bolungarvík 2011 en hefur frá þeim tíma spilað með ensku utandeildaliðunum Whiteleafe, Sutton United og Aylesbury United.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert