Króatar réðu nýjan þjálfara

Igor Stimac á hliðarlínunni gegn Skotum í fyrrakvöld.
Igor Stimac á hliðarlínunni gegn Skotum í fyrrakvöld. AFP

Króatar, sem gætu orðið mótherjar Íslendinga í umspilinu um sæti á HM 2014 í Brasilíu, réðu í dag Niko Kovac sem landsliðsþjálfara sinn í knattspyrnu til þriggja ára. Hann tekur við af Igor Stimac sem var sagt upp störfum fyrr í dag.

Stimac bauðst til að hætta eftir að Króatar töpuðu fyrir Skotum, 2:0, í lokaleik sínum í riðlakeppninni í fyrrakvöld en ósigurinn þýddi að þeir voru hársbreidd frá því að missa af umspilinu sem sú þjóð sem var með lakasta stöðu í öðru sæti riðlanna.

Króatar töpuðu ennfremur, 1:2, fyrir Belgum á heimavelli síðasta föstudagskvöld og þar fór þeirra síðasti möguleiki á að komast beint á HM.

Kovac þjálfaði áður króatíska 21-árs landsliðið en hann hefur nú verið ráðinn framyfir úrslitakeppni EM 2016. Kovac er 42 ára, fyrrum leikmaður Bayern München, en hann skoraði 14 mörk í 83 landsleikjum fyrir Króatíu á sínum tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert