Viðar, Sverrir og Steinþór skoruðu

Viðar Örn Kjartansson er kominn með 4 mörk fyrir Vålerenga.
Viðar Örn Kjartansson er kominn með 4 mörk fyrir Vålerenga. Ljósmynd/vif-fotball.no

Íslendingar skoruðu þrjú af átta mörkum sem skoruð voru í fyrstu þremur leikjum dagsins í norsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu en þar er leikin heil umferð í dag.

Sverrir Ingi Ingason og Steinþór Freyr Þorsteinsson sáu um mörk Viking sem sigraði Haugesund, 2:0, á heimavelli sínum í Stavangri. Allir fimm Íslendingarnir voru í byrjunarliði Viking, Jón Daði Böðvarsson byrjaði í fyrsta sinn og þeir Indriði Sigurðsson fyrirliði og Björn Daníel Sverrisson voru á sínum stað í liðinu. Steinþór var sá eini þeirra sem lék ekki til enda.

Viðar Örn Kjartansson skoraði sitt fjórða mark á tímabilinu fyrir Vålerenga sem vann Hannes Þór Halldórsson og samherja hans í Sandnes Ulf örugglega, 3:0. Viðar gerði fyrsta markið hjá Hannesi á 45. mínútu.

Matthías Vilhjálmsson lagði síðan upp fyrra mark Start sem vann góðan útisigur á Aalesund, 2:1. Matthías spilaði allan tímann en Guðmundur Kristjánsson þurfti að fara af velli eftir hálftíma leik.

Viking er nú á toppi deildarinnar með 8 stig og Vålerenga og Start eru í þriðja og fjórða sæti með 7 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert