Skúli Jón skoraði – Hannes varði víti

Skúli Jón Friðgeirsson í leiknum í Halmstad í dag.
Skúli Jón Friðgeirsson í leiknum í Halmstad í dag. Ljósmynd/Gunnar Elíson

Skúli Jón Friðgeirsson var á skotskónum í dag þegar lið hans Gefle tapaði fyrir Halmstad í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu.

Skúli Jón lék allan leikinn og skoraði markið á fyrstu mínútu uppbótartíma og minnkaði muninn í 3:2, sem urðu lokatölur. Þetta er fyrsta mark Skúla í sænsku úrvalsdeildinni.

Kristinn Steindórsson lék allan leikinn með Halmstad og var valinn maður leiksins, enda vinnusamur og hættulegur allan tímann, en Guðjón Baldvinsson var ekki með þar sem hann tók út leikbann vegna þriggja gulra spjalda.

Halmstad er í fjórtánda sæti af sextán liðum með 14 stig en Gefle er í því ellefta með 16.

Í norsku úrvalsdeildinni stóð Hannes Þór Halldórsson að vanda í marki Sandnes Ulf, sem tapaði á heimavelli fyrir norsku meisturunum í Strömsgodset á heimavelli, 3:1. Hannes varði vítaspyrnu í stöðunni 1:1, en meistararnir laumuðu inn tveimur mörkum á tveggja mínútna kafla undir lokin.

Sandnes er sem fyrr á botni deildarinnar með 10 stig eftir 17 leiki en Strömsgodset er í öðru sæti með 33, sex stigum á eftir toppliði Molde.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert