Meiðslavandræði Bayern fyrir leikinn við Man. City

Arjen Robben æfði ekki í gær í aðdraganda leiksins við …
Arjen Robben æfði ekki í gær í aðdraganda leiksins við Manchester City á miðvikudagskvöld. AFP

Arjen Robben gat ekki æft með Bayern München í gær vegna hnémeiðsla og óvíst er að hann geti leikið með liðinu gegn Manchester City í Meistaradeild Evrópu á miðvikudagskvöld.

Auk Robben hefur Franck Ribéry átt við meiðsli að stríða en hann kom inná sem varamaður í 2:0-sigrinum á Stuttgart á laugardaginn í sínum fyrsta leik á tímabilinu.

Miðvörðurinn Holger Badstuber fór meiddur af velli í leiknum gegn Stuttgart og verður líklega frá keppni næstu mánuðina, en hann var nýbúinn að vinna sér sæti aftur í liði Bayern eftir að hafa verið úr leik í 20 mánuði vegna krossbandsslita.

Þar að auki eru þeir Thiago Alcantara, Bastian Schweinsteiger og Rafinha allir frá keppni vegna meiðsla. Bayern hefur ekki þótt byrja leiktíðina vel en þarf líklega að sýna sitt besta til að fara með sigur af hólmi gegn City.

„Við vitum að við þurfum að gera betur gegn Manchester City. Þeir eru með lið í hæsta gæðaflokki, enskir meistarar, og við viljum byrja keppnina vel. Það vantar ennþá einhvern takt í okkur,“ sagði Philipp Lahm, fyrirliði Bayern.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert