Frumraun Suárez á Nývangi

Luis Suárez í baráttu við Sergio Ramos í leik Real …
Luis Suárez í baráttu við Sergio Ramos í leik Real Madrid og Barcelona um síðustu helgi. AFP

Úrúgvæski framherjinn Luis Suárez mætir í fyrsta sinn til leiks með liði Barcelona á heimavelli í kvöld þegar liðið tekur á móti Celta Vigo á Nývangi.

Suárez er sem kunnugt er kominn úr fjögurra mánaða keppnisbanni og fór beint í byrjunarlið Barcelona í stórleiknum gegn Real Madrid um síðustu helgi þar sem Madrídíngar höfðu betur, 3:1, og söxuðu á forskot Barcelona sem enn er á toppi deildarinnar.

„Hann spilaði mjög vel, tók réttar ákvarðanir á flestum stundum og var alltaf virkur í spilamennskunni,“ sagði Luis Enrique, stjóri Barcelona, um Suárez sem lagði meðal annars upp eina mark Barcelona, en liðið hafði unnið fyrstu átta leiki sína í deildinni áður en hann var settur í byrjunarliðið.

Alfreð Finnbogason og félagar í Real Sociedad eru einnig í eldlínunni í kvöld, en liðið tekur á móti Málaga klukkan 21. Það gengur hvorki né rekur hjá Sociedad sem er í fjórða neðsta sæti deildarinnar með sex stig eftir níu leiki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert