„Algjörlega óásættanlegt“

Pálmi Rafn Pálmason er að öllum líkindum á förum frá …
Pálmi Rafn Pálmason er að öllum líkindum á förum frá Lilleström. Ljósmynd/lsk.no

Pálmi Rafn Pálmason hefur ef að líkum lætur leikið sinn síðasta leik með Lilleström. Samningur hans við norska úrvalsdeildarliðið er runninn út og hafa samningaviðræður á milli hans og félagsins um nýjan samning ekki borið árangur.

,,Eins og staðan er í dag verð ég ekki áfram hjá Lilleström. Ég fékk algjörlega óásættanlegt tilboð frá félaginu og það virðist vera að ekki verði frekari viðræður á milli okkar. Íþróttastjóri félagsins virðist ekki hafa áhuga á að ná samningi við mig. Það lítur alla vega þannig út fyrir mér,“ sagði Pálmi Rafn við Morgunblaðið í gær en eins og fram hefur komið glímir Lilleström við fjárhagserfiðleika og þurfa leikmenn að taka á sig launalækkun.

Væntanlega hugsa einhver lið hér heima sér gott til glóðarinnar að fá Pálma í sínar raðir. Pálmi Rafn sagði við Morgunblaðið á dögunum að hans gamla félag, Valur, hafi haft samband en ekki er ólíklegt að KR, FH og jafnvel Stjarnan muni heyra hljóðið í leikmanninum og þá hafa lið í Skandinavíu sýnt honum áhuga.

„Ég hef heyrt af einhverjum áhuga án þess að vita hvort það komi tilboð eða ekki,“ sagði Pálmi.

Nánar í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert