Man. City og PSG laus úr viðjum UEFA

Manuel Pellegrini knattspyrnustjóri Manchester City.
Manuel Pellegrini knattspyrnustjóri Manchester City. mbl.is / AFP

Evrópska knattspyrnusambandið UEFA hefur leyst Manchester City og Paris Saint Germain undan þeim takmörkunum sem félögin hafa verið háð varðandi stærð leikmannahópa sinna í Meistaradeild Evrópu og þeirri upphæð sem félögunum er heimilt að eyða í hverjum félagaskiptaglugga vegna brota á reglum UEFA um fjárhagslega háttvísi. 

Manchester City og Paris Saint Germain hefur einungis verið heimilt að hafa til reiðu 21 leikmenn í Meistaradeildarhópum sínum á meðan öðrum félögum hefur verið heimilt að skrá 25 leikmenn til leiks.

Þá var Manchester City einvörðungu heimilt að eyða 49 milljón evrum í leikmannakaup í hverjum félagaskiptaglugga og Paris Saint Germain 60 milljón evrum.

UEFA hefur nú leyst félögin undan fyrrgreindum takmörkunum þar sem félögin hafa mætt þeim kröfum sem fram koma í reglum UEFA um fjárhagslega háttvísi. Félögin verða þó áfram undir smásjá UEFA og þurfa að sýna fram á samsvörun milli tekna og fjárútláta í rekstri sínum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert