Aldrei fleiri séð fótboltaleik

Tobin Heath skorar fimmta mark Bandaríkjanna í úrslitaleiknum gegn Japan.
Tobin Heath skorar fimmta mark Bandaríkjanna í úrslitaleiknum gegn Japan. AFP

Úrslitaleikur Bandaríkjanna og Japan um heimsmeistaratitil kvenna í Vancouver á sunnudagskvöldið er sá knattspyrnuleikur sem hefur fengið mest áhorf í bandarísku sjónvarpi fyrr eða síðar.

Samkvæmt tölum sem SoccerAmerica.com hefur birt horfðu að meðaltali 25,4 milljónir manna á útsendinguna frá leiknum og fór mest í 30,9 milljónir í seinni hálfleiknum.

Áður höfðu flestir fylgst með bandaríska karlalandsliðinu spila við Portúgal á HM í Brasilíu síðasta sumar, rúmlega 18,2 milljónir.

Þar skammt undan kemur úrslitaleikur Bandaríkjanna og Kína á HM kvenna árið 1999 en hann sáu rétt tæplega 18 milljón sjónvarpsáhorfendur í landinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert