Ísland á EM vinnist næstu tveir leikir

Íslendingar fagna marki gegn Hollendingum.
Íslendingar fagna marki gegn Hollendingum. mbl.is/Golli

Íslenska landsliðið í knattspyrnu er í þeirri stöðu í A-riðli undankeppni Evrópumóts landsliða að vinni það Holland og Kasakstan í leikjunum tveimur sem fram fara í vikunni er farseðillinn í úrslitakeppnina í Frakklandi næsta sumar í höfn.

Ísland, England, Slóvakía, Austurríki, Svíþjóð, Ítalía og Króatía eru liðin sem geta tryggt sér sæti í úrslitakeppninni um næstu helgi en eftir leikina tvo í vikunni verða bara tveir leikir eftir í riðlakeppninni.

Tvær efstu þjóðirnar í riðlinum tryggja sér sjálfkrafa þátttökurétt í úrslitakeppninni í Frakklandi og það lið sem nær bestum árangri í þriðja sætinu kemst einnig áfram. Hin átta liðin sem enda í þriðja sætinu fara í umspil um sæti í úrslitakeppninni.

Ísland trónir á toppi A-riðilsins með 15 stig en á eftir koma: Tékkland 13, Holland 10, Tyrkland 8, Lettland 3 og Kasakstan 1.

Ísland mætir Hollandi í Amsterdam á fimmtudagskvöldið og tekur síðan á móti Kasakstan á Laugardalsvellinum á sunnudaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert