Erfitt að velja de Gea miðað við óbreytt ástand

Del Bosque leikur listir sínar á æfingu.
Del Bosque leikur listir sínar á æfingu. AFP

Landsliðsþjálfari Spánar í knattspyrnu, Vicente del Bosque, segir að það verði erfitt að velja David de Gea í lokahópinn fyrir Evrópumótið næsta sumar ef ástand markvarðarins hjá Manchester United breytist ekki. 

Real Madrid ætlaði að kaupa de Gea frá Manchester United en félagskiptin gengu ekki í gegn. Spænski markvörðurinn hefur ekki leikið með United hingað til og del Bosque segir að leikmenn verði að spila til að fara á Evrópumótið.

„Ég vona að hann fari að leika knattspyrnu aftur og verði hamingjusamur. Ef hann spilar vel getum við tekið hann með á mótið, ef ástandið breytist ekki verður erfitt fyrir hann að taka þátt í mótinu,“ sagði del Bosque.

Hann sagðist ekki hafa gefið de Gea nein góð ráð. „Hann þarf að hegða sér fagmannlega og horfa fram á veginn,“ bætti del Bosque við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert