Heimurinn fær að vita hvenær Zlatan hættir

Zlatan er ánægður í París.
Zlatan er ánægður í París. AFP

Sænski sóknarmaðurinn Zlatan Ibrahimovic segist hafa vitað af áhuga frá hans gamla liði, AC Milan, í sumar. Hann hafi hins vegar ákveðið að halda kyrru fyrir í París, enda líði honum og fjölskyldu hans vel þar. 

„Þeir höfðu mikinn áhuga á mér en ég sagði þeim strax að ég myndi ekki yfirgefa París. Mér líður vel þar,“ sagði Svíinn á blaðamannafundi í morgun fyrir leik Svía gegn Rússum á laugardag í undankeppni Evrópumótsins í knattspyrnu.

Fleiri lið voru sögð hafa áhuga á Ibrahimovic en hann segist líta á það sem hrós. „Það þýðir að ég stend mig vel og ég tek þessu á jákvæðan hátt. Lið verð að sýna áhuga, ég hringi ekki út og segist vera tilbúinn að færa mig um set. Áhuginn verður að koma frá hinum aðilanum.“

Ibrahimovic verður 34 ára í næsta mánuði og veit að hann á ekki mörg ár eftir í fremstu röð í knattspyrnu. Hann vill þó ekkert segja til um það hvenær hann hætti. „Þið fáið að vita hvenær ég hætti. Heimurinn mun fá að vita það, enda verður það frétt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert