Get ekki hugsað mér EM án Hollands

Danny Blind stýrir Hollandi í fyrsta sinn sem aðalþjálfari í …
Danny Blind stýrir Hollandi í fyrsta sinn sem aðalþjálfari í kvöld. Honum til aðstoðar eru ekki minni menn en Marco van Basten og Ruud van Nistelrooy. AFP

Hollendingar eiga á hættu að missa af sæti á Evrópumótinu í knattspyrnu í fyrsta sinn frá árinu 1984. Þeir eru með bakið upp við vegg í sínum undanriðli og eru staðráðnir í að landa sigri á Íslandi í Amsterdam í kvöld.

„Ég get ekki hugsað mér Evrópumótið í Frakklandi án Hollands,“ sagði þjálfarinn Danny Blind við fréttamenn.

„Þetta er það sem leikmennirnir eru með í huga núna. Mótið verður nærri okkar heimili svo við vitum að stuðningsmannahópurinn verður gríðarlega stór, og fyrir suma leikmenn er þetta síðasti séns til að spila á stórmóti. Þetta helst allt í hendur til að skerpa á einbeitingu manna, en þetta snýst bara um fótboltann og hvað menn gera í leikjum. Hvernig förum við að því að vinna? Með því að svara því þá komumst við til Frakklands,“ sagði Blind.

Hollendingar hafa oft átt góðu gengi að fagna á EM. Fimm sinnum hefur liðið komist í undanúrslit og einu sinni orðið meistari, árið 1988.

Ísland er á toppi A-riðils með 15 stig, Tékkland er með 13, Holland 10 og Tyrkland 8. Tvö efstu liðin komast beint á EM og 3. sætið dugar pottþétt til umspils (liðið með bestan árangur í 3. sæti riðlanna 9 fer beint á EM). Holland á eftir að mæta Íslandi í kvöld, Tyrklandi á útivelli, Kasakstan á útivelli og Tékklandi á heimavelli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert