Geta ekki varist þrír gegn mér

Arjen Robben er í hópi bestu knattspyrnumanna heims.
Arjen Robben er í hópi bestu knattspyrnumanna heims. AFP

Arjen Robben, fyrirliði hollenska landsliðsins í knattspyrnu, segir að íslenska liðið muni ekki eiga eins auðvelt með að verjast sóknum Hollands í kvöld eins og þegar Ísland vann 2:0-sigur á Laugardalsvelli í fyrra.

Robben leikur í kvöld sinn 87. landsleik og þann fyrsta eftir að hafa fengið fyrirliðabandið frá Robin van Persie. Hann var hættulegastur Hollendinga í fyrri leiknum en þá var lítil ógn af vinstri kantmanninum Jeremain Lens. Robben var jafnframt haldið vel í skefjum af Ara Frey Skúlasyni og þeim Aroni Einari Gunnarssyni og Ragnari Sigurðssyni sem voru alltaf nærri til að aðstoða Ara.

„Ég er búinn að horfa aftur á fyrri leikinn. Þar var ég allt of einangraður úti á kantinum. En við getum sótt á tveimur köntum, og ef það verður nógu mikil ógn vinstra megin núna þá eykst fjölbreytnin í okkar sókn. Það gerir mér auðveldara fyrir. Ísland ætti aldrei að hafa tíma til að verjast þrír gegn einum. Það er lykilatriði,“ sagði Robben við AD.

Samkvæmt hollenskum fjölmiðlum er allt útlit fyrir að Memphis Depay, leikmaður Manchester United, leiki á vinstri kantinum, Robben á þeim hægri, og Klaas-Jan Huntelaar sem fremsti maður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert