„Ég hef engan áhuga á að læra frönsku“

Ragnar segir að það hafi verið bull að dæma aukaspyrnu …
Ragnar segir að það hafi verið bull að dæma aukaspyrnu þegar Tyrkir skoruðu sigurmarkið í kvöld. mbl.is/Eggert

Ragnar Sigurðsson, varnarmaður íslenska landsliðsins, var frekar svekktur eftir 1:0 gegn Tyrklandi í undankeppni EM í kvöld. Hann var vægast sagt óánægður með aukaspyrnuna sem Tyrkir skoruðu eina mark leiksins úr.

„Þetta var frábær aukaspyrna en það var algjört bull að þeir fengu hana. Þetta var aldrei aukaspyrna á Kára. Þetta er mjög pirrandi,“ sagði Ragnar í viðtali við RÚV eftir leikinn í kvöld.

Honum fannst tapið svekkjandi því Tyrkir sköpuðu sér nánast engin færi. „Það er aldrei hægt að stoppa allt. Þeir voru með boltann fyrir utan vítateig hjá okkur en ég man ekki eftir því að þeir hafi skapað neitt. Það vantaði bara að við myndum ná að setja eitt og þeir myndu ekki skora úr þessari aukaspyrnu.“

Ragnari fannst gaman að spila í þessari mögnuðu stemningu sem var á vellinum í kvöld. „Þetta var mjög gaman. Tyrkirnir eru flottir, með skemmtilega stuðningsmenn og það er alltaf gaman að spila í svona stemningu.“

Að lokum var Ragnar spurður að því hvort hann væri byrjaður að glugga í franska orðabók fyrir mótið næsta sumar: „Ég hef engan áhuga á að læra frönsku,“ sagði Ragnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert