Leikmennirnir lögðu hjarta og sál í verkefnið

Tyrkir fagna sigrinum í kvöld.
Tyrkir fagna sigrinum í kvöld. AFP

Fatih Terim, landsliðsþjálfari Tyrkja, var skiljanlega ánægður eftir að lærisveinar hans sigruðu Ísland 1:0 í kvöld í undankeppni EM í knattspyrnu. Sigurinn tryggir Tyrkjum þátttökurétt á Evrópumótinu sem fram fer í Frakklandi næsta sumar.

„Ég þakka Guði fyrir þennan sigur. Þjóðin þurfti á því að halda að geta verið ánægð, þó það sé ekki nema í nokkra klukkutíma,“ sagði Terim við tyrkneska fjölmiðla að leik loknum.

Hann sagði að Tyrkir gætu brosað í smástund núna en þjóðarsorg hefur ríkt í landinu síðan á laugardag en þá var gert sprengjutilræði í Ankara með þeim afleiðingum að í það minnsta 95 einstaklingar létust.

Terim bætti við að Íslendingar væru erfiðir mótherjar. „Mér fannst við leika betur í fyrri hálfleik en þeim síðari. Leikmenn mínar léku óaðfinnanlega og lögðu hjarta og sál í verkefnið. Við erum lið sem gefst aldrei upp.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert