Klopp hælir fyrrum lærisveini sínum

Klopp er hrifinn af Henrikh Mkhitaryan, miðjumanni Dortmund.
Klopp er hrifinn af Henrikh Mkhitaryan, miðjumanni Dortmund. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, segir að Henrikh Mkhitaryan, miðjumaður Dortmund, sé einn af hæfileikaríkustu knattspyrnumönnum í heimi. Mkhitaryan, sem er armenskur landsliðsmaður, lék undir stjórn Klopp hjá Dortmund frá 2013-2015.

Armeninn var orðaður við félagaskipti til Liverpool í sumar og stuðningsmenn félagsins halda í vonina um að Mkhitaryan flytji fljótlega til Englands. „Það er ekki vafi í mínum huga að Mkhitaryan er einn af allra hæfileikaríkustu leikmönnum í heimi,“ sagði Klopp um armenska leikstjórnandann.

Mkhitaryan þótti ekki vera upp sitt allra besta á síðustu leiktíð en fyrrverandi stjóri hans kemur honum til varnar. „Það er talað um að hann hafi átt í vandræðum. Ég held að 99% af fólki myndi vilja glíma við hans „vandræði.““

Klopp segir að Mkhitaryan hafi góða blöndu af tækni og hraða og fáir aðrir leikmenn séu þannig. „Það er ástæða fyrir því að margir af bestu skákmönnum heims koma frá Armeníu. Já, góðir skákmenn koma frá öðrum löndum en það koma fleiri en hægt væri að búast við frá Armeníu. Þeir eru miklir hugsuðir og gríðarlega vinnusamir,“ sagði Klopp.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert