Mellberg tekur við af Magna

Olof Mellberg.
Olof Mellberg. Ljósmynd/brommapojkarna.se

Olof Mellberg, fyrrverandi landsliðsmaður Svía í knattspyrnu og m.a. leikmaður Aston Villa um árabil, hefur verið ráðinn þjálfari sænska liðsins Brommapojkarna frá Stokkhólmi og hann  tekur þar við af Magna Fannberg sem þjálfaði liðið á þessu ári.

Líkur eru á að Magni haldi áfram hjá félaginu og verði aðstoðarþjálfari liðsins. Magni staðfesti það við mbl.is rétt í þessu en sagði að ekki væri búið að ganga frá neinu í því sambandi enn sem komið er.

Magni hefur starfað hjá Brommapojkarna í hálft sjöunda ár og var lengst af með unglingalið félagsins en tók við aðalliðinu eftir að það féll úr úrvalsdeildinni síðasta haust. Með nánast nýtt og lítt reynt lið náði Brommapojkarna ekki að halda sæti sínu í B-deildinni í ár og leikur því í C-deild á næsta tímabili.

Olof Mellberg er 38 ára gamall og lék 117 landsleiki fyrir Svía en hann lagði skóna á hilluna vorið 2014 eftir að hafa lokið ferlinum með FC Köbenhavn. Áður lék hann með Villarreal, Olympiacos, Juventus, Aston Villa, Racing Santander og sænsku liðunum AIK og Degerfors.

Mellberg hefur verið búsettur í Stokkhólmi síðasta árið og komið að þjálfun yngri flokka hjá Brommapojkarna.

Þorlákur Árnason er yfirmaður knattspyrnumála hjá Brommapojkarna en hann tók við því starfi fyrr í þessum mánuði eftir að hafa stýrt akademíu félagsins í eitt ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert