Framlengdu bannið hjá Valcke

Jeróme Valcke.
Jeróme Valcke. AFP

Siðanefnd FIFA, Alþjóða knattspyrnusambandsins, framlengdi í morgun bann framkvæmastjóra sambandsins, Jeróme Valcke, frá afskiptum af knattspyrnu um 45 daga, eða til 20. febrúar.

Rannsóknarteymi siðanefndarinnar mælti í gær með því að Valcke yrði úrskurðaður í níu ára bann frá knattspyrnu vegna meintar spillingar og óskaði eftir því að þágildandi bann hans í 90 daga, sem rann út í gær, yrði framlengt um 45 daga.

Siðanefndin hefur þar með svigrúm til að afgreiða mál Frakkans endanlega en fyrir jólin úrskurðaði hún Sepp Blatter, forseta FIFA, og Michel Platini, forseta UEFA, báða í átta ára bann frá afskiptum af fótbolta. Þeir hafa báðir áfrýjað til CAS, Alþjóða íþróttadómstólsins.

Valcke er m.a. sakaður um að hafa hagnast ólöglega á sölu á miðum á heimsmeistaramót karla og um mútur. Hann neitar öllum ásökunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert