Vill ekki bara taka „selfie“ með Messi

Yarmolenko verður að leika knattspyrnu og vill því helst ekki …
Yarmolenko verður að leika knattspyrnu og vill því helst ekki fara til Barcelona. AFP

Úkraínski landsliðsmaðurinn Andriy Yarmolenko myndi frekar vilja ganga til liðs við Everton en Barcelona. Yarmolenko, sem leikur með Dynamo Kiev í heimalandinu, hefur verið orðaður við áðurnefnd félög undanfarið.

Hann var spurður að því hvort hann myndi frekar vilja fara til Everton, þar sem hann ætti öruggt sæti í byrjunarliðinu, eða sitja á bekknum hjá Barcelona. „Það væri betra að leika með Everton,“ sagði Yarmolenko.

„Auðvitað getur maður farið til Barcelona, tekið flotta „selfie“ með Messi, látið myndina á Instagram og fengið milljónir aðdáenda sem gera mann ánægðan. Ég er hins vegar ekki einn af þeim sem gera slíkt,“ bætti Yarmaolenko við.

Hann sagðist vera að spila knattspyrnu, helst tvisvar í viku. „Ef ég leik ekki tvisvar í viku þá verð ég uppfullur af orku og tilfinningum og veit ekki hvernig ég á að fá mína útrás. Fjölskyldan verður mjög fljótt þreytt á mér. Daginn eftir leik er ég eitt stórt bros. Ef ég hins vegar missi af leik er ég fljótur að stofna til rifrildis.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert