„Ég er eins og kona“

Pep Guardiola getur enn unnið þrennuna með Bayern, liðinu sem …
Pep Guardiola getur enn unnið þrennuna með Bayern, liðinu sem hann yfirgefur í sumar. AFP

Pep Guardiola segir að það komi ekki til með að trufla störf sín hjá Bayern München að nokkru leyti að nú sé þegar orðið ljóst að hann taki við sem knattspyrnustjóri Manchester City næsta sumar.

Guardiola gerði samning til þriggja ára við City en hann tekur við af Manuel Pellegrini eftir þetta tímabil. Á síðustu sex leiktíðum, sem stjóri Barcelona og Bayern, hefur hann fagnað 19 titlum, þar af sex landsmeistaratitlum og tveimur Evrópumeistaratitlum. Hann segir enga ástæðu til að ætla að það verði erfiðara fyrir sig að bæta titlum í safnið sem stjóri Bayern nú í vor:

„Af hverju ætti það að vera erfitt? Ég er eins og kona, ég get sinnt fleiri en einu verkefni í einu og haft fulla stjórn á því sem ég er að gera. Ég er mjög hæfileikaríkur að þessu leyti,“  sagði Guardiola við fréttamenn í dag.

Guardiola mun hafa hafnað nýju samningstilboði Bayern á síðasta ári og í desember greindi hann frá því að hann væri á förum frá félaginu. Áður en að því kemur gæti hann landað þýska meistaratitlinum og bikarmeistaratitlinum, auk þess sem Bayern er enn með í Meistaradeild Evrópu og gæti hugsanlega mætt Manchester City í keppninni.

„Ég get ekki tjáð mig um þessi mál í hverri viku. Þetta verða fjórir mánuðir í viðbót og hvað mig varðar er ekkert vandamál í gangi. Blöðin geta haldið árásum sínum áfram og ég vinn bara mína vinnu. Þjálfarar fá litla virðingu þessa dagana. Svona er þetta alls staðar. Í Madrid, Barcelona, Þýskalandi og Englandi,“ sagði Guardiola.

„Það eru dagblöð hérna sem njóta virðingar, sem hafa ekki spurt mig einnar spurningar um fótbolta þessi þrjú ár sem ég hef verið hérna. En þetta fylgir starfinu. Ég skil þetta ekki en ég get alveg lifað við þetta,“ sagði Spánverjinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert