„Þarf að svara þegar Ole Gunnar hringir“

Eiður Smári og Ole Gunnar Solskjær.
Eiður Smári og Ole Gunnar Solskjær. Ljósmynd/moldefk.no

„Það er frábært að vera kominn hingað. Ég get ekki beðið eftir að komast á völlinn og að allt sé klappað og klárt,“ sagði Eiður Smári Guðjohnsen, nýr leikmaður Molde FK, í viðtali við heimasíðu félagsins eftir undirskriftina í dag.

Eiður gerði eins árs samning við Molde í dag en hann hefur verið án félags síðan hann yfirgaf Shijizhuang Ever Bright fyrir áramót.

„Molde sýndi mikinn áhuga á mér og ég þekki þjálfarann frá tíma mínum á Englandi. Þegar einhver eins og Ole Gunnar Solskjær hringir í þig og vill spjalla þá svarar maður símanum. Við ræddum hlutina og hvernig hann sér hlutina fyrir sér og hvernig ég sé þá fyrir mér og við komumst að samkomulagi,“ sagði Eiður Smári.

„Ég er á lokakafla ferilsins. Ég reyni að gera leikmennina í kringum mig betri og reyni að brosa þegar ég spila. Ég spila bara þar sem þjálfarinn lætur mig spila, bara svo lengi sem ég spila.“

„Ég vil reyna að hafa jákvæð áhrif bæði innan- og utanvallar. Ég vil setja gott fordæmi en muna líka að ég er einn af leikmönnum liðsins og að við verðum allir að standa saman til þess að ná árangri. Ég vonast til þess að spila eins mikið og mögulegt er og vonandi berjast um titilinn líka,“ sagði hann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert