Loksins vann Neville á Spáni

Loksins, loksins gæti Neville verið að hugsa með sér.
Loksins, loksins gæti Neville verið að hugsa með sér. AFP

Gary Neville gat í kvöld loksins fagnað sigri sem knattspyrnustjóri Valencia. Lærisveinar hans sigruðu þá Espanyol, 2:1, í spænsku 1. deildinni í knattspyrnu.

Oscar Duarte kom gestunum frá Barcelona yfir í upphafi síðari hálfleiks. En Alvaro Negredo og lánsmaðurinn frá Real Madrid, Denis Cheryshev, tryggðu Valencia sigur með tveimur mörkum á stuttum tíma þegar um 15 mínútur voru eftir af leiknum.

Neville var ráðinn stjóri Valencia 2. desember og fátt hefur gengið hjá lærisveinum hans siðan. Liðið tapaði til að mynda fyrri leik sínum í undanúrslitum spænsku bikarkeppninnar 7:0 fyrir Barcelona. Margir stuðningsmenn Valencia hafa síðan viljað losna við Neville og sigurinn í kvöld því kærkominn.

Eftir leikinn er Valencia í 11. sæti deildarinnar með 28 stig en Espanyol er með 22 stig í 17. sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert