Leik hætt og allt sauð upp úr í Íslendingaslag (myndskeið)

Viðar Örn Kjartansson í búningi Malmö.
Viðar Örn Kjartansson í búningi Malmö. @Malmo_FF

Það sauð allt upp úr í Íslendingaslag Gautaborgar og Malmö í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld. Eftir að flugeldi, að því er virtist, var skotið að varamanni Malmö svaraði sá aldeilis fyrir sig. Leiknum hefur verið hætt.

Leikurinn var markalaus þegar flugeldur sprakk hjá Tobias Sana, fyrrum leikmanni Gautaborgar, sem var að hita upp á hliðarlínunni. Einnig höfðu bjórdósum og fleira lauslegu verið hent að honum. Hann reiddist, hljóp að áhorfendastúkunni og reif hornfánann upp í leiðinni sem hann svo grýtti í stúkuna. Atvikið má sjá hér að neðan.

Eftir það var leikurinn stöðvaður og síðar hætt. Viðar Örn Kjartansson og Kári Árnason eru báðir í byrjunarliði Malmö og Viðar átti meðal annars skalla í þverslá. Hjörtur Hermannsson er svo kominn inn sem varamaður í sínum fyrsta deildarleik fyrir Gautaborg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert