Fyrrverandi liðsfélaga Alfreðs rænt

Alan Pulido, landsliðsframherji Mexíkó.
Alan Pulido, landsliðsframherji Mexíkó. AFP

Framherja mexíkóska karlalandsliðsins í knattspyrnu var rænt snemma í morgun í borginni Ciucad Vitoria í Taumilipas-ríki í heimalandinu. Mexíkóskir fjölmiðlar greina frá þessu í dag.

Alan Pulido, sem er 25 ára gamall framherji, leikur með Olympiacos í Grikklandi, en hann gerði sex mörk í 13 leikjum fyrir félagið á tímabilinu.

Hann á að baki sex landsleiki og fjögur mörk fyrir mexíkóska landsliðið en hræðilegar fréttir voru að berast frá Mexíkó.

Samkvæmt fjölmiðlum þar í landi var honum rænt um klukkan tvö í nótt en hann var þá í teiti með kærustu sinni, Ileönu Salas. Ræningjarnir tóku hana einnig en hentu henni út úr bílnum nálægt bílastæðahúsi í grenndinni.

Lögreglan í Tamaulipas staðfestir að Pulido hafi verið rænt. Bróðir hans staðfesti einnig fregnirnar við fjölmiðla en hann segir að nokkrir bílar hafi mætt fyrir utan teitið og tekið Pulido og kærustu hans.

Alfreð Finnbogason, landsliðsmaður í knattspyrnu, var liðsfélagi Pulido hjá Olympiacos, en mexíkóski framherjinn gekk til liðs við Olympiacos  frá Levadiakos síðasta sumar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert