Suárez enn og aftur í klípu

Luis Suarez eftir leikinn á þriðjudag.
Luis Suarez eftir leikinn á þriðjudag. AFP

Luis Suárez, framherji Barcelona og úrúgvæska landsliðsins í knattspyrnu, gæti hafa komið sér í klípu eftir atvik sem átti sér stað eftir 3:1 sigur Síle á Úrúgvæ í undankeppni heimsmeistaramótsins í gær. Hann gæti átt yfir höfði sér tveggja leikja bann.

Úrúgvæ og Síle hafa eldað grátt silfur síðustu ár er liðin hafa mæst en það þarf ekki að rekja það lengra en í S-Ameríkukeppninni á síðasta ári er Edinson Cavani var rekinn af velli eftir samskipti hans við Gonzalo Jara. Viðbrögð Cavani þóttu eðlileg en Jara tróð fingri í afturendann á Cavani. Dómarar leiksins tóku hins vegar ekki eftir því.

Síle hafði þá betur en liðið vann einnig leikinn í undankeppninni á þriðjudag. Eftir leikinn virtist Suárez gefa stuðningsmönnum „puttann“, en hann gæti átt yfir höfði sér tveggja leikja bann.

Eduardo Vargas fékk rautt spjald fyrir svipað atvik á síðasta ári og er nú útlit fyrir að Suárez taki ekki þátt í næstu tveimur leikjum. Knattspyrnusambandið í Úrúgvæ segist hins vegar vera með sönnunargögn fyrir því að Suárez hafi ekki gefið stuðningsmönnum fingurinn.

Sönnunargögnin eiga að sýna fram á það að Suárez hafi í raun og veru bara verið að telja skiptin sem Úrúgvæ hefur unnið S-Ameríkukeppnina en þjóðin hefur unnið hana fimmtán sinnum.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Suárez kemur sér í vandræði. Hann beit Georgio Chiellini, varnarmann ítalska landsliðsins, í leik á HM 2014, en þar áður hafði hann bitið Branislav Ivanovic, leikmann Chelsea og Otman Bakkal hjá PSV. Þá var hann einnig dæmdur í bann fyrir að vera með kynþáttafordóma í garð franska varnarmannsins Patrice Evra er Liverpool og Manchester United áttust við í október árið 2011.

Luis Suarez virðist telja upp þau fimmtán skipti sem Úrúgvæ …
Luis Suarez virðist telja upp þau fimmtán skipti sem Úrúgvæ hefur unnið S-Ameríkukeppnina. Af netinu
Þarna virðist Luisi Suarez gefa stuðningsmönnum Síle puttann.
Þarna virðist Luisi Suarez gefa stuðningsmönnum Síle puttann. Af netinu
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert