Okkar réttur að gefa leikina

Múgur og margmenni fyrir utan kirkju í Chapecó þar sem …
Múgur og margmenni fyrir utan kirkju í Chapecó þar sem minningarathöfn var haldin um þá sem létust. AFP

Leikmenn kólumbíska knattspyrnuliðsins Atlético Nacional eru mjög ákveðnir í þeirri afstöðu sinni að gefa úrslitaleikina í Copa Sudamerica gegn Chapecoense frá Brasilíu, þannig að brasilíska liðið, sem fórst mest allt í flugslysinu hörmulega í fyrrinótt, verð krýnt meistari.

„Þetta er að okkar frumkvæði og ég veit að fótboltaheimurinn stendur allur með okkur. Vonandi fer Knattspyrnusamband Suður-Ameríku eftir þessari ósk okkar. Við viljum líka styðja  við bakið á fjölskyldum allra sem í hlut eiga," sagði Gilberto García, leikmaður Atlético, við kólumbíska fjölmiðla.

„Það er okkar réttur að gefa þeim titilinn," sagði liðsfélagi hans Miguel Angel Borja, en fram hefur komið að líklegt sé að félögin tvö verði látin deila titlinum.

Fyrri úrslitaleikur liðanna átti að fara fram í Medellín í Kólumbíu í kvöld og sá síðari í Chapecó í Brasilíu á sunnudaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert