Síle á marga frábæra leikmenn

Sílemenn fagna sigrinum á Króatíu í Nanning á miðvikudaginn.
Sílemenn fagna sigrinum á Króatíu í Nanning á miðvikudaginn. AFP

Lið Síle sem mætir Íslandi í úrslitaleik Kínamótsins í knattspyrnu í Nanning í fyrramálið er svipað samsett og það íslenska á þessu móti. Viðureign þjóðanna hefst klukkan 7.35 að íslenskum tíma.

Bæði lið eru með nokkra af sínum fastamönnum en samt aðallega með leikmenn sem höfðu spilað fáa eða enga landsleiki fyrir þetta mót.

Sílebúar eiga eitt af fremstu landsliðum heims í dag en þeir eru núna í fjórða sæti heimslista FIFA og voru um skeið í þriðja sæti hans á síðasta ári. Í undankeppni HM 2018 eru þeir í fjórða sæti þegar tólf umferðir af átján hafa verið leiknar í Suður-Ameríku en fjögur efstu liðin fara beint á HM í Rússlandi og það fimmta í umspil. Þeir eru stigi fyrir ofan Argentínu, sem er í fimmta sæti, og tveimur stigum fyrir ofan Kólumbíu sem er í sjötta sæti og það segir sitt um harðan slag um HM-sætin í heimsálfunni.

Sílebúar eiga marga frábæra leikmenn sem ekki eru með á þessu móti þar sem þeir eru uppteknir með liðum sínum í Evrópu rétt eins og raunin er með íslenska liðið. Þar má nefna Alexis Sánchez hjá Arsenal, Claudio Bravo, markvörð Manchester City, Gary Medel frá Inter Mílanó, Arturo Vidal frá Bayern München og Matías Fernández frá AC Milan.

Þekktastur þeirra sem spila á Kínamótinu er framherjinn Eduardo Vargas, leikmaður Hoffenheim í Þýskalandi, en hann hefur nú verið lánaður til Galatasaray í Tyrklandi og kemur þar í staðinn fyrir Kolbein Sigþórsson. Hann hefur spilað 67 landsleiki en er þó aðeins 27 ára gamall.

Jean Beausejour er 32 ára miðjumaður sem á 86 landsleiki að baki en hann lék í nokkur ár með ensku liðunum Birmingham og Wigan og varð enskur bikarmeistari með Wigan 2013.

Carlos Carmona, varnarmaður Atlanta á Ítalíu, leikur væntanlega sinn 50. landsleik gegn Íslandi í Nanning og þá getur miðjumaðurinn José Pedro Fuenzalida spilað sinn 40. landsleik en hann leikur með Universidad Católica í Síle.

Annars leika 15 af 22 í hópi Sílemanna með liðum í heimalandi sínu, einn í Mexíkó og einn í Argentínu en hinir fimm í Evrópu. Fimm spiluðu sinn fyrsta landsleik þegar Síle vann Króatíu í vítaspyrnukeppni eftir 1:1 jafntefli liðanna í Nanning á miðvikudaginn, þar á meðal César Pinares, leikmaður Unión Espanola í Síle, sem skoraði mark liðsins.

Ísland og Síle hafa tvisvar áður mæst í A-landsleik í knattspyrnu. Íslendingar sóttu Sílebúa heim í vináttuleik vorið 1995 og þá varð jafntefli, 1:1, í leik þar sem Arnar Gunnlaugsson kom Íslandi yfir í fyrri hálfleik en heimamenn jöfnuðu í þeim síðari.

Liðin mættust síðan á Indlandsmótinu 2001, sem var  svipað og Kínamótið í janúarmánuði það ár, þar sem flesta bestu leikmennina vantaði. Leikurinn var í 8-liða úrslitum mótsins, eftir að bæði lið fóru áfram úr sínum riðlum, og Síle vann þá viðureign 2:0.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert