Sverrir Ingi klár í slaginn á morgun

Sverrir Ingi Ingason verður í treyju númer 25 hjá Granada.
Sverrir Ingi Ingason verður í treyju númer 25 hjá Granada. Ljósmynd/Granada

Sverrir Ingi Ingason verður í leikmannahópi Granada í fyrsta sinn á morgun þegar liðið sækir Espanyol heim í spænsku 1. deildinni í knattspyrnu.

Gengið var formlega frá kaupunum á Sverri frá Lokeren í Belgíu í gær, en hann hafði þegar fengið leyfi til þess að æfa með félaginu. Þjálfarinn Lucas Alcaraz segir ekkert því til fyrirstöðu að Sverrir spili strax á morgun.

„Sverrir hefur nú þegar náð þremur æfingum með okkur og er tilbúinn að spila. Í fyrsta lagi kom hann til okkar í góðu leikformi og í öðru lagi tel ég að hann sé kominn nógu vel inn í hlutina hjá okkur á þessum æfingum til þess að spila sinn fyrsta leik,“ sagði Alcaraz við heimasíðu Granada.

Granada er í 19. sæti af 20 liðum með 10 stig, fjórum stigum frá öruggu sæti. Espanyol er í 11. sæti með 23 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert