Stórsigur hjá Bayern München

Leikmenn Bayern München fagna marki Robert Lewandowski í stórsigri liðsins …
Leikmenn Bayern München fagna marki Robert Lewandowski í stórsigri liðsins gegn Hamburger SV í dag. AFP

Leikmenn Bayern München voru svo sannarlega á skotskónum þegar liðið mætti Hamburger SV í 22. umferð þýsku efstu deildarinnar í knattspyrnu karla á Allianz Arena í dag. Bayern München gjörsigraði Hamburger SV, en lokatölur í leiknum urðu 8:0 Bayern München í vil. 

Robert Lewandowski skoraði þrennu fyrir Bayern München, Kingsley Coman skoraði tvö marka liðsins og Arturo Vidal, David Alaba og Arjen Robben skoruðu sitt markið hver.

Bayern München trónir á toppi deildarinnar með 53 stig eftir þennan sigur, en liðið hefur fimm stiga forskot á RB Leipzig sem bar sigurorð af Köln með þremur mörkum gegn einu í dag.

Þá vann Borussia Dortmund 3:0-sigur gegn Freiburg, en Borussia Dortmund situr í þriðja sæti deildarinnar með 30 stig. Pierre-Emerick Aubameyang skoraði tvö marka Borussia Dortmund í sigri liðsins í dag. 

Robert Lewandowski og Pierre-Emerick Aubameyang eru jafnir í efsta sæti yfir markahæstu leikmenn deildarinnar, en þeir hafa hvor um sig skorað 19 mörk. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert