Magnaður viðsnúningur Svía í Portúgal

Cristiano Ronaldo tekinn föstum tökum af Svíum í kvöld.
Cristiano Ronaldo tekinn föstum tökum af Svíum í kvöld. AFP

Fjölmargir vináttulandsleikir í knattspyrnu fóru fram í kvöld og meðal annars unnu frændur okkar Svíar dramatískan sigur á Evrópumeisturum Portúgals.

Cristiano Ronaldo kom Portúgölum yfir á 18. mínútu og forskot þeirra tvöfaldaðist fyrir hlé þegar Svíar skoruðu sjálfsmark. Staðan 2:0 í hálfleik.

Viktor Claesson, leikmaður Krasnodar í Rússlandi, jafnaði metin fyrir Svía með tveimur mörkum um miðjan síðari hálfleikinn. Í uppbótartíma skoruðu Portúgalar svo sjálfsmark og Svíar unnu 3:2.

Ófarir Hollendinga halda áfram

Ófarir Hollendinga halda svo áfram, en liðið tapaði fyrir Ítalíu í Amsterdam í kvöld 2:1. Hollendingar komust yfir með sjálfsmarki á 10. mínútu, en nánast í næstu sókn jafnaði Eder fyrir Ítali. Það var svo Leonardo Bonucci sem tryggði gestunum sigurinn, 2:1.

Þetta var jafnframt í fyrsta sinn síðan haustið 2015 sem Hollendingar tapa tveimur leikjum í röð, en þeir töpuðu fyrir Búlgaríu í undankeppni HM á laugardag.

Það var svo stórleikur í París þar sem Frakkar fengu Spánverja í heimsókn, en það voru gestirnir sem fóru með 2:0 sigur af hólmi. Eins og í hinum leikjunum komust þeir yfir með sjálfsmarki, áður en Gerard Deulofeu innsiglaði sigurinn, en bæði mörkin komu í síðari hálfleik.

Króatar, sem eru í undanriðli HM með Íslendingum, steinlágu svo fyrir Eistlandi á útivelli 3:0, en Króatar hvíldu sínar helstu stjörnur í leiknum. Finnar, sem einnig eru í riðli Íslands, gerðu 1:1 jafntefli við Austurríki á útivelli.

Leonardo Bonucci fagnar sigurmarki Ítalíu í Amsterdam.
Leonardo Bonucci fagnar sigurmarki Ítalíu í Amsterdam. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert