Þjálfarinn í gæsluvarðhald eftir 12:0-tap

B-lið Barcelona fagnaði 12:0-sigri gegn Eldense en leikurinn hefur vakið …
B-lið Barcelona fagnaði 12:0-sigri gegn Eldense en leikurinn hefur vakið grunsemdir. AFP

Spænska lögreglan rannsakar nú hvort brögð hafi verið í tafli þegar B-lið Barcelona vann Eldense 12:0 í spænsku 3. deildinni í knattspyrnu um helgina.

Ítalski þjálfarinn Filippo Vito di Pierro, sem stýrði liði Eldense ásamt Fran Ruiz, var hnepptur í gæsluvarðhald í gær og hald lagt á gögn frá honum. Di Pierro var handtekinn eftir að lögregla hafði yfirheyrt nokkra leikmenn Eldense, í kjölfarið á kvörtun frá forseta félagsins.

12:0-tapið var jöfnun á meti í spænsku 3. deildinni, en með tapinu féll Eldense niður í 4. deild þó sex leikir séu eftir. Í kjölfarið á tapinu tilkynnti félagið á sunnudag að íþróttastarfsemi þess hefði verið lögð niður tímabundið.

Áður en  Di Pierro var handtekinn hafði einn leikmanna Eldense, Cheikh Saad, fullyrt í útvarpsviðtali að nokkrir leikmenn og Ruiz þjálfari hefðu staðið að því að liðið fengi viljandi á sig svo mörg mörk. Saad tók ekki þátt í leiknum og neitað að koma inn á eftir að Barcelona hafði skorað fimm mörk á aðeins 15 mínútum.

„Ég vil segja sannleikann. Ég hef fengið hótanir um að nafngreina ekki menn en mér er sama. Það voru fjórir menn sem tóku þátt í þessu og ég hef látið lögregluna vita nöfnin á þeim. Lögreglan hefur allar þær upplýsingar sem hún þarf og ég vona að það verði send skýr skilaboð með því að refsa þeim. Ég er 100% viss um að þjálfarinn [Fran Ruiz] tók þátt í þessu,“ sagði Saad við Cadena Cope-útvarpsstöðina.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert