Björn og Daníel skoruðu báðir

Daníel Leó Grétarsson, til hægri, ásamt Aroni Elís Þrándarsyni. Daníel …
Daníel Leó Grétarsson, til hægri, ásamt Aroni Elís Þrándarsyni. Daníel skoraði í dag og Aron lagði upp. Ljósmynd/aafk.no

Það voru fjölmargir Íslendingar á ferðinni í norsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag og þeir Björn Bergmann Sigurðarson og Daníel Leó Grétarson voru til að mynda báðir á skotskónum fyrir sín lið.

Björn Bergmann spilaði allan leikinn í framlínu Molde sem vann auðveldan heimasigur á Vålerenga, 4:0. Björn lagði upp fyrsta markið og skoraði svo sjálfur það fjórða, en eftir hálftíma var staðan orðin 3:0 fyrir Molde. Óttar Magnús Karlsson kom inn á sem varamaður hjá Molde á 64. mínútu, en þetta var þriðji sigur liðsins í fyrstu fjórum umferðunum. Samúel Kári Friðjónsson var ekki með Vålerenga vegan meiðsla.

Daníel Leó Grétarsson kom svo Aalesund á bragðið í 3:1-heimasigri gegn Lilleström. Daníel skoraði strax á 5. mínútu, og Aron Elís Þrándarson lagði svo upp annað mark liðsins með einkar laglegum hætti rétt fyrir hlé. Daníel spilaði allan leikinn en Aron fór af velli á 74. mínútu, á meðan Adam Örn Arnarson sat allan tímann á bekknum. Þetta var fyrsti sigur Aalesund og er liðið nú með 4 stig.

Ingvar Jónsson stóð svo allan tímann í marki Sandefjord sem vann 2:0-heimasigur á Kristiansund. Sandefjord er með 6 stig eftir fjórar umferðir. Viðar Ari Jónsson sat svo allan tímann á varamannabekk Brann í 3:1-heimasigri á Haugesund. Brann er með 7 stig. Þá var Kristinn Jónsson ekki með Sogndal í 1:1-jafntefli við Strömsgodset, en Sogndal er með 4 stig.

Í norsku B-deildinni spilaði svo Guðmundur Kristjánsson allan leikinn með Start sem vann heimasigur á Åsane, 4:0. Start er með 7 stig eftir þrjá leiki, en liðið féll úr úrvalsdeildinni í fyrra.

Björn Bergmann í leik með Molde.
Björn Bergmann í leik með Molde. Ljósmynd/moldefk.no
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert