Sorgmæddur yfir hversu heimskur ég var

Lars Lagerback
Lars Lagerback AFP

Lars Lagerbäck, fyrrum landsliðsþjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu og núverandi þjálfari norska landsliðsins spjallaði við mbl.is á meðan leikmenn Manchester City æfðu á Laugardalsvelli í dag. Svíinn ætlar að fylgjast með leik City og West Ham á morgun og er hann mjög ánægður með að vera kominn aftur til Íslands. 

„Það er frábært að vera kominn aftur, ég er sorgmæddur yfir hversu heimskur ég var að hafa stokkið á annað starf, annars hefði ég reynt að vera á hverjum einasta heimaleik. Það er mjög gott að koma til baka."

Ásamt því að horfa á leikinn á morgun, ætlar Lagerbäck að hitta gömlu samstarfsfélaga sína í kringum landsliðið. 

„Ein ástæða þess að ég kom til Íslands er leikurinn á morgun. Einhverjir Svíar sem ég þekkti aðeins höfðu samband við mig til að komast í samband við KSÍ. Ég er fyrst og fremst hérna til að hitta gömlu samstarfsfélaga mína. Það verður mjög gaman að hitta þessa frábæru starfsmenn á meðan ég var að vinna hér."

Hann segir leik City og West Ham á morgun vera spennandi tækifæri fyrir íslenska stuðningsmenn.

„Þetta er stórt, en auðvitað er þetta ekki eins og að sjá landsliðið spila," sagði hann brosandi. „Það er mikið af fólki sem mætir, því það er gaman að sjá góða fótboltamenn koma saman. Þetta er mjög gott fyrir unga knattspyrnumenn sem eru að læra og aðra stuðningsmenn sem fá tækifæri til að sjá tvö frábær lið í ensku úrvalsdeildinni, þó þetta sé bara vináttuleikur."

Nokkrir leikmenn City og West Ham voru í enska landsliðinu þegar Lars stýrði íslenska liðinu til sigurs gegn því enska á EM í Frakklandi á síðasta ári. Hann segist ekki hafa hitt þá í dag. 

„Nei, ég hef ekki rekist almennilega á neinn af þeim og ég er ekki viss um að þeir hafi séð mig," sagði hann og hló dátt.

En hvernig hefur Lars fundist ganga með norska liðið? 

„Þetta er svipað og þegar ég tók við Íslandi, nema hjá Íslandi byrjuðum við á vináttuleikjum á meðan ég hef byrjað á keppnisleikjum og það er erfiðara. Ég er að vinna í því að kynnast leikmönnunum sem best og það er mikilvægt að finna um 15 leikmenn sem er hægt að byggja liðið í kringum. Við höfum bætt okkur á milli leikja, þetta lítur nokkuð vel út sem stendur."

Lagerbäck ber enn miklar tilfinningar til Íslands og íslenska liðsins. 

„Íslenska landsliðið er uppáhalds liðið mitt með því norska. Ég hef séð alla leikina í sjónvarpinu og liðið hefur staðið sig mjög vel. Ég krossa fingur fyrir Heimi og Ísland og vonandi kemst liðið á HM. Það væri algjörlega frábært. Leikmennirnir og starfsfólkið eiga stórt pláss í hjarta mínu, ásamt öllu Íslandi, ég kann mjög vel að meta Ísland," sagði Svíinn að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert