Meðhöndlaður eins og glæpamaður

Diego Costa, leikmaður Chelsea, í baráttu við Gylfa Þór Sigurðsson, …
Diego Costa, leikmaður Chelsea, í baráttu við Gylfa Þór Sigurðsson, leikman Swansea City, í leik liðanna á síðustu leiktíð.

Diego Costa horfði á Chelsea tapa fyrir Burnley, 3:2, í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu karla á heimili sínu í norðaustur Brasilíu á laugardaginn. Costa hefur verið tjáð að krafta hans sé ekki óskað hjá Chelsea og hann hefur haldið til á æskuslóðum sínum í sumar. Costa ræddi ýmsar hliðar á deilu sinni við Chelsea í samtali við Daily Mail.

„Þetta hefur verið afar skrýtinn tími frá því að við tryggðum okkur Englandsmeistaratitilinn. Það er á hreinu að Antonio Conte vill ekki sjá mig aftur og ég er að bíða eftir því að Chelsea losi mig undan samningi mínum. Ég vildi ekki vera fara frá Chelsea þar sem ég var ánægður hjá félaginu. Það er hins vegar lítið sem ég get gert ef knattspyrnustjórinn vill ekki hafa mig,“ sagði Costa í samtali við Daily Mail. 

„Samherjar mínir hjá Chelsea sakna mín líka og ég hef verið að fá skilaboð þar sem þeir segja að mín sé sárt saknað. Ég held enn sambandi við leikmenn Chelsea, en ég tala mest við Cesc Fabregas, David Luiz og Willian. Ég hefði viljað spila áfram með þessum leikmönnum og þeir eru sama sinnis,“ sagði Costa um samband sitt við leikmenn Chelsea.

„Ég veit ekki hvað býr að baki því að forráðamenn Chelsea vilja losna við mig. Ég lék afar vel á síðustu leiktíð og lagði mig allan fram í alla leiki. Mér var hins vegar refsað fyrir þá slæmu hegðun sem ég hafði sýnt í janúar. Ég var nálægt því að skrifa undir nýjan samning á þeim tíma, en Conte stöðvaði þær samningaviðræður,“ sagði Costa um upphaf deilna sinna við Chelsea.

Conte skortir hlýju í mannlegum samskiptum

„Ég ber mikla virðingu fyrir Conte sem þjálfara, en hann er verulega fær í sínu starfi. Það sama á ekki við um persónuleika hans og færni hans í mannlegum samskiptum. Conte á ekki í nánum samskipum við leikmenn sína og hann er fjarlægur og hefur ekki mikla persónutöfra,“ sagði Costa þegar hann er beðinn um lýsa knattspyrnustjóra sínum.

„Sem dæmi um það er að hann sendi mér það í smáskilaboði að hann vildi losna við mig frá félaginu. Það er ekki mikil reisn yfir því að mínu mati. Conte hefði átt að ræða við mig augliti til auglitis og koma hreint fram við mig. Ég var í verkefni með spænska landsliðinu þegar ég fékk skilaboðin og þetta var mikið áfall,“ sagði Costa um þá aðferð sem Conte notaði til þess að koma skilaboðum sínum áleiðis til Costa. 

„Chelsea hefur komið fram við mig eins og glæpamann í þessu máli, en vill svo að ég mæti til London til þess að æfa með varaliðinu. Þeir hafa bannað mér að vera á sama svæði og aðalliðið og það er eins og ég hafi framið einhvern glæp. Chelsea hefur sektað mig fyrir að mæta ekki til starfa og það þykir mér mjög ósanngjarnt,“ sagði Costa ósáttur við þá slæmu meðferð sem hann telur Chelsea beita sig.

„Ég skil ekki af hverju Chelsea leyfir mér ekki að fara fyrst að þeir vilja ekki að ég æfi og spili með aðalliði félagsins. Þetta er mjög vanvirðandi meðferð og ef ég neyðist til þess að leita til dómstóla til þess að losna undir þessari áþján þá mun ég gera það. Mig langar að ganga til liðs við Atlético Madrid. Þar átti ég góða tíma og Diego Simeone vill fá mig til liðsins. Við kunnum vel við hvorn annan og ég er meira en til í að spila undir hans stjórn á nýjan leik,“ sagði Costa um framhaldið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert